21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég hefði nú raunar getað fallið frá orði, eftir að hæstv. forsrh. hefur talað, því að það, sem kom mér nú til þess að kveðja mér hljóðs, var að fá úr því skorið, hvern skilning ætti að leggja í starfssvið verðgæzlustjóra. Ég hafði haldið, að það væri líkt og starfssvið verðlagsstjóra áður, eins og hv. 3. landsk. þm. líka hélt fram, en hv. 2. þm. Reykv. dró það mjög í efa, að svo væri. En nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir, að það leiði af sjálfu sér að safna skýrslum um verðlag og gera tillögur til fjárhagsráðs, eins og verið hefur, en ég hefði talið það vera afturför, ef rýra hefði átt tillögurétt verðlagsstjóra með þessu frv. En ég sætti mig við skýringu hæstv. forsrh. og tel með því fengna fulla skýringu á þessu vafaatriði.