21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um yfirlýsingu hæstv. forsrh. og álít, að rétt sé að gera ráðstafanir til þess að tryggja, að það verði ekki í höndum þeirra, sem síðar eiga að fjalla um þessi mál, dregið úr þeim skilningi, sem hæstv. forsrh. leggur í þessi atriði. En fyrst nú verðgæzlustjóri á að halda því valdi, sem verðlagsstjóri hefur haft, þá held ég, að það sé rétt að breyta. 3. gr. þannig, að framan við hana komi þær tvær setningar, sem upphaflega voru þar og eru í fullu samræmi við þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. hefur nú gefið. Ég vil því leyfa mér að bera fram svohljóðandi brtt. við 3. gr., að framan við gr. komi tvær málsgr., svohljóðandi:

„Verðlagsstjóra er skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar tillögur til fjárhagsráðs um verðlag í landinu og hver verðlagsákvæði skuli þar um sett.

Tillögur þessar getur verðlagsstjóri gert, hvenær sem hann telur þess þörf, enda getur fjárhagsráð krafið hann um slíkar tillögur, eftir því sem þurfa þykir.“

Þetta er orðrétt eins og frv. var í upphafi, og ef það er meiningin, að það vald, sem verðlagsstjóri hefur haft, haldist áfram sem réttur og skylda verðgæzlustjóra, þá er rétt, að það standi áfram í gr. — Ég vil svo biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt. minni.