21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vænti þess, að hv. þm. leggi ekki meira í ummæli mín en rétt er. Ég tók það fram, að verðgæzlustjóri hefði fullan rétt til þess að bera fram till. um verðlagningu á vörum í landinu, en það er hvergi tekið fram, að það sé sérstök skylda hans.

Um hitt atriðið vil ég taka fram, að ég tel það eðlilegra vegna starfssviðs þessa embættismanns, að hann sé nefndur verðgæzlustjóri, en ekki verðlagsstjóri, því að verðlagsákvörðunin er ekki í höndum hans, heldur er hún í höndum fjárhagsráðs, sem hann getur lagt fyrir skýrslur sínar og tillögur um verðlag. Sé ég því ekki ástæðu til þess að amast við því, þó að þessu nafni sé breytt, ef það þykir betur á því fara. Ef hann hefði haft verðlagsákvörðunarvald, þá var eðlilegt, að hann hefði heitið áfram verðlagsstjóri, þá er heitið gott, en ekki eins og starfssvið hans er. Þetta er það, sem ég vildi taka fram, og er í samræmi við mína skoðun á málinu og það, sem ég sagði áðan.