25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir því, þegar þetta frv. var til umr. í gær, að hv. allshn. mundi taka það til einhverrar frekari athugunar, sem því miður n. ekki virðist hafa gert. Ég fæ ekki betur séð en að eins og þetta kemur frá hv. Ed., þá stangist þetta lagafrv. að verulegu leyti við II. kafla fjárhagsráðsl. Það er að vísu gert ráð fyrir, að III. kafli fjárhagsráðsl. verði felldur niður. En í II. kafla þeirra l. er haldið m. a. 10. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhagsráð starfrækir innflutnings- og gjaldeyrisdeild, er einnig hefur með höndum verðlagseftirlit“. Þarna er beinlínis sagt, að það sé starfandi sérstök deild á vegum fjárhagsráðs, sem hafi með höndum verðlagseftirlit. Í 12. gr. í sama kafla í fjárhagsráðsl. stendur, með leyfi hæstv. forseta, um hlutverk innflutnings- og gjaldeyrisdeildar, að það sé að fara með verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit. — Mér skilst, að þessi tvö atriði fjárhagsráðsl. stangist beinlínis við það frv., sem er á dagskrá, og hefði af þeim ástæðum verið nauðsynlegt fyrir hv. n. að taka þetta mál til dálítið ýtarlegri athugunar. — Ég vona, að það sé ekki beinlínis í samningi milli núverandi hv. stjórnarflokka, að það þurfi að afgr. hér lagafrv. á þinginu, sem stangast við gildandi lög, án þess að ákvæði þeirra laga séu jafnframt felld úr gildi. Ég vildi því mjög alvarlega beina því til hv. frsm., að hann athugi þessi atriði, ef hann hefur ekki gert það áður.

Um málið að öðru leyti vildi ég segja það, að fyrri kafli þessa frv. er í raun og veru nokkurs konar uppprentun á III. kafla fjárhagsráðsl. — og léleg uppprentun, því að í þessum kafla hef ég ekki séð nein ákvæði, sem geri verksvið verðlagseftirlitsins rýmra, en það hefur áður verið. Hins vegar er þetta orðið nokkru þrengra á þann hátt, að m. a. er fellt niður, að ég hygg, ákvæðið um eða heimildin til þess að skipa trúnaðarmenn um allt land til verðlagseftirlits. Það getur vel verið, að hv. n. og hæstv. ríkisstj. einblíni svo á Reykjavík, að hún telji, að það sé engin ástæða til að hafa verðlagseftirlit annars staðar en í Reykjavík. En m. a. er þessi heimild um trúnaðarmenn úti á landi felld niður með því lagafrv., sem hér er á dagskrá. — Það má vel vera, að það séu fleiri atriði, sem verða með þessu lagafrv. felld úr núgildandi l. En hvað sem er um það, þá hef ég a. m. k. ekki rekið mig á, að starf verðlagseftirlitsins sé að neinu leyti fært á heilbrigðari grundvöll, en verið hefur. Og ég er þar með ekki að segja, að ég hafi verið ánægður með verðlagseftirlitið. Síður en svo. Aðalatriði fyrri kafla frv. er að taka verðlagseftirlitið úr höndum innflutnings- og gjaldeyrisdeildar og setja það í hendur fjárhagsráðs. Það má auðvitað segja, að í því efni hafi fjárhagsráð áður haft nokkurt úrskurðarvald. En daglegar framkvæmdir, sem voru gerðar ágreiningslaust í verðlagseftirlitinu eða hjá innflutnings- og gjaldeyrisdeild, komu ekki til kasta fjárhagsráðs. Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þeim ágætu mönnum, sem fjárhagsráð skipa, eða þeirra starfi þar. Ég hef ekkert annað en gott um þá að segja af þeirra samstarfi. En ég hygg þó, að það sé mjög misráðið að leggja verðlagseftirlitið undir fjárhagsráð. Og ég skal færa rök að því, að störf fjárhagsráðs voru á þeim tíma, sem ég sat í því, svo mikil, að fjárhagsráðsmennirnir höfðu ekki tíma til annarra starfa, ef þeir vildu sinna því, sem þeir þurftu að gera í fjárhagsráði. Síðan ég fór úr fjárhagsráði, hefur verið tekinn upp sá háttur nú um áramótin að leggja niður gjaldeyris- og innflutningsnefndina, og síðan má segja, að um innflutnings- og gjaldeyrismálin hafi ráðið slíkt ófremdarástand, þó að ekki hafi gjaldeyrisverzlunin verið góð áður, — að það er algerlega óviðunandi. Síðan gjaldeyris- og innflutningsnefndin var lögð niður, hefur ekki verið hægt að fá að hafa tal af neinum ráðamanni í innflutningsmálunum. Þeir tveir fjárhagsráðsmenn, sem hafa tekið að sér innflutnings- og gjaldeyrismálin, þeir vinna líka í fjárhagsráði og hafa af þeim ástæðum ekki haft neinn tíma til að sinna innflutnings- og gjaldeyrismálunum svo sem vera þyrfti. Ég vil ítreka það, að ég er alls ekki að segja þetta þessum mönnum til lasts. En ég vil benda á, að það nær engri átt að hlaða svo störfum á svo fáa menn, að þeir geti ekki sinnt þeim að einu eða neinu leyti, svo að vel sé. Það eru bráðum liðnir fjórir mánuðir ársins, og vera má, að litlir möguleikar hafi verið til þess að gefa út gjaldeyrisleyfi þannig, að hægt hefði verið að standa við þau. En því meiri ástæða væri til þess að reyna að koma þeim litlu leyfum þannig fyrir, að aðeins væru gefin leyfi fyrir því allra nauðsynlegasta og að reynt yrði að haga þessum málum þannig, að hægt væri að greiða eitthvað fyrir nauðsynlegum innflutningi. En ég held því alveg hiklaust fram, að með því starfi, sem lagt er á herðar fjárhagsráðsmannanna með því að bæta innflutnings- og gjaldeyrisúthlutun á tvo mennina, sem þurfa að starfa í fjárhagsráði a. m. k. hálfan daginn, þá sé þannig séð fyrir innflutnings- og gjaldeyrismálunum, að í alla staði sé óviðunandi fyrir alla þá menn, sem eitthvað þurfa með þessi mál að gera. — Ég sé, að hæstv. viðskmrh. er nú ekki hér í d. og reyndar enginn úr ríkisstj. Þarna kemur hæstv. fjmrh., en hann hefur ekki með viðskiptamálin að gera, eins og sakir standa. En það ríkir sá siður hjá ríkisstj. að láta ekki sjá sig, þó að við séum að ræða hér á Alþ. mál, sem almenning varða allmikið, heldur annaðhvort vera einhvers staðar annars staðar eða þá hér í þinghúsinu í hálfgerðum felum. Nú þegar hefur keyrt um þvert bak í sambandi við stjórn þessara mála og farið versnandi eftir því, sem lengra hefur liðið á árið. En þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að auka enn störf þessarar stofnunar með því að leggja allt verðlagseftirlit undir umsjón hennar. Að vísu er gert ráð fyrir, að ráðinn verði sérstakur starfsmaður til þessara starfa, en þrátt fyrir það verður umsjónin hjá fjárhagsráði, og má fullyrða, að mörg og margvísleg mál komi til úrskurðar þess, enda þótt það sýnist fullhlaðið störfum fyrir.

Af þessu, sem ég nú hef rakið, tel ég, að hér sé eingöngu um sýndarfrv. að ræða. Hv. Framsfl. talaði mikið um nauðsynlegar hliðarráðstafanir í sambandi við gengislækkunina, og til þess að bregðast ekki alveg þeim loforðum hefur hann talið sig þurfa að sýna eitthvað í verki og þess vegna hefur hann lagt áherzlu á. að þetta frv. næði fram að ganga, enda þótt öllum hljóti að vera ljóst, að það er einungis til að sýnast og ekki einungis þýðingarlaust til úrbóta í verðlagsmálunum, heldur mun það verða til að auka enn það öngþveiti, sem nú ríkir í þeim málum. Ég skal ekki ræða þetta frekar, en ég vorkenni mínum ágæta samþm. og merka þm., 1. þm. Árn., að hafa tekið að sér framsögu í þessu máli, jafnilla undirbúinn og hann virðist vera.

Ég skal ekki gera breyt. n. að umtalsefni, þær eru fremur lítils virði, en þó líklega flestar til hins verra. Hins vegar vil ég minna á brtt. á þskj. 551. Þar er gert ráð fyrir, að verðgæzlustjóri athugi sérstaklega, að álagningu saumastofa verði stillt í hóf og ekki leyft að leggja nema einu sinni á framleiðslu þessara fyrirtækja. Frsm. n. gerði lítið úr þessari brtt., en ég hygg, að það stafi af ókunnugleika á þessum málum og hvernig þessari álagningu er nú háttað. Með samningi fjárhagsráðs við nokkrar hraðsaumastofur á síðastliðnu ári tókst að lækka fataverð úr 650 kr. niður í 450 kr. pr. fatnað. Hvernig mátti þetta takast, kann einhver að spyrja. Jú, það var hægt með því að láta saumastofurnar sjálfar fá innflutningsleyfin fyrir efnunum í þessa fatnaði, en með því var spöruð öll sú álagning, sem ella lendir hjá ýmsum milliliðum. Þessi sparnaður nam hvorki meira né minna en 250 kr. pr. fatnað. Ég hygg, að þetta sé eitt með betri verkum fjárhagsráðs og eitt af því fáa, sem lánazt hefur til að sporna gegn dýrtíðinni. Þegar nú 8. landsk. flytur brtt. um að lögfesta hliðstætt atriði í sambandi við þetta verðlags- og verðgæzlufrv., atriði sem getur orðið rétt spor í baráttunni við aukna dýrtíð, þá bregzt 1. þm. Árn. illa við og telur till. þýðingarlausa. Hv. þm. má brosa, en ég segi fyrir mig, að ég tel, að hans aðstaða í þessu máli sé heldur aumkunarverð, því að hann hefur sýnilega tekið að sér framsögu í þessu máli án þess að kynna sér það, en lagt allt traust sitt á, að flokksforingi sinn hafi búið það nægilega vel í sínar hendur, sem hefur því miður alveg brugðizt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil ítreka það, að ég tel frv., eins og það nú er úr garði gert, aðeins til að sýnast, og þá skoðun mína mun reynslan eiga eftir að sanna.