25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. vildi bera fyrir sig 9. gr. frv. til sönnunar því, að valdið í verðlagsmálunum væri hjá samtökum fólksins. En hvað segir 9. gr.? Hún segir svo, með leyfi forseta: „Verðlagsstjóri og starfsmenn hans skulu hafa eftirlit með því, að verðlagsákvæðunum sé hlýtt. — Verðlagsstjóri hefur á hendi allan daglegan rekstur í sambandi við verðlagseftirlitið. — Ef upp rís ágreiningur um skilning á verðlagsákvæðum, sker fjárhagsráð úr. Þó getur verðlagsstjóri skotið þeim úrskurði til dómstólanna, sbr. næsta kafla þessara laga.“ Það er að segja, að nú er einungis gert ráð fyrir, að verðgæzlustjóri hafi eftirlit með verðlagi, sem fjárhagsráð ákveður. Þetta er gagnger breyting frá hinum upphaflega tilgangi frv., því að þá átti verðlagsstjórinn að líta eftir verðlaginu og ákveða það eftir gögnum, sem hann átti heimtingu á að fá afhent og gæfu glöggar upplýsingar um, hvernig verðið væri myndað. Hann átti sem sé að athuga hvern þátt verðmyndunarinnar og ganga úr skugga um, hvort allir þeir þættir væru réttir og eðlilegir. Hann hefði t. d. getað heimtað ýmsar kostnaðaráætlanir og gagnrýnt þær til þess að fá verðið lækkað, og má í því sambandi minna á olíuhringana, sem stöðugt hækka verðið eftir eigin geðþótta. Þetta var hinn upphaflegi tilgangur form. Framsfl., þegar hann lagði frv. fyrir þingið. En það undarlega skeður, að nú hefur frv. verið gerbreytt og það með samþykki Framsfl. Og eins og frv. lítur nú út, er allt þetta upphaflega vald, sem verðlagsstjóranum var ætlað, tekið af honum. Það er ekki til neins fyrir 1. þm. Árn. að reyna að telja sjálfum sér eða öðrum trú um, að svo sé ekki. Eftir frv., eins og það nú liggur fyrir, er allt þetta vald hjá fjárhagsráði. Það er að vísu gert ráð fyrir, að það geti skipað annan verðlagsstjóra til að rannsaka verðmyndun og verðlag, en það vald er ekki lengur hjá samtökum fólksins, sem sameiginlega átti að ráða skipun hins eiginlega verðlagsstjóra, er nú verður aðeins eftirlitsmaður með því, sem fjárhagsráð hefur ákveðið. Það er með öðrum orðum verið að taka valdið frá fólkinu, sem till. Framsfl. upphaflega ætluðu því, og færa það í hendur fulltrúa S. Í. S. og heildsalanna í fjárhagsráði, sem koma sér svo einhvern veginn saman, með eigin hagsmuni fyrir augum, án þess að samtök fólksins, neytendanna, hafi þar nokkra hönd í bagga. Frsm. var að tala um, að ég tortryggði dómstólana, sem með þessi mál hefðu farið undanfarið. Ef 1. þm. Árn. hefði. lesið vel greinargerð flokksforingja síns fyrir þessu frv., eins og það var lagt fyrir Alþingi, þá hefði hann sennilega aldrei látið þessi orð falla, því að þar segir, með leyfi forseta: „En þótt eftirlit sé gert fullkomnara, má þó búast við brotum, sem kæra verður, rannsaka og dæma í, að þeirri rannsókn lokinni.

Almenningur telur, að furðu hljótt hafi verið um þennan málarekstur — og það um of. Til þess að almenningur geti haft tryggingu fyrir því, að mál út af verðlagsbrotum séu samvizkusamlega rekin, þykir rétt að veita neytendum vald til að tilnefna meðdómsmenn, er dæmi í verðlagsmálum með hinum almenna dómara líkt og nú tíðkast í sjórétti. En auk þess þykir ástæða til að búa enn þá rammbyggilegar um hnútana. Til þess að sem flestir landsmenn fái tækifæri til að fylgjast með rekstri þessara mála, sem svo mjög skipta hag þeirra beint og óbeint, þykir rétt að ákveða, að málsmeðferð öll sé rekin fyrir opnum dyrum, nema dómurinn ákveði annað. Enn fremur að dómar séu birtir.“

Með öðrum orðum, þá kemur það greinilega fram í grg., að dómstólunum er ekki treyst og almenningur geti ekki treyst þeim, nema hann fái að hafa hönd í bagga með þeim og fylgjast með málarekstri. Það er ekki bara mér, sem finnst þetta. Það er Framsfl., flokkur hv. frsm., 1. þm. Árn., undir forustu formannsins, sem hefur kveðið upp úr í þessu máli og birt hér í grg. fyrir þessu frv., að dómstólunum sé ekki treystandi til að fara með þessi mál. Það er sem sagt Framsfl. sjálfur, sem ekki treystir dómstólunum í þessu efni, eða gerði það að minnsta kosti ekki, þegar þessi grg. var samin. Þess vegna er nauðsynlegt, að tekin sé af allur vafi um skilning á þeim ákvæðum, sem sett eru. Það er ekki víst, að góður vilji 1. þm. Árn. nægi alltaf, þegar skýra á ákvæði l., ef ágreiningur kemur fram um einstök atriði. Og þó að hann lýsi ákveðnum skilningi á ýmsum ákvæðum hér í ræðu sem frsm. allshn., þá er ekki víst, að allir heyri til hans eða geti lesið hans góða skilning. Bæði er nú, eins og þm. er kunnugt, nokkur bið á því, að alþingistíðindi komi út, og svo lesa svo tiltölulega fáir þessar miklu bækur. Það má því gera ráð fyrir, að þessi góði skilningur liggi fyrst nokkur ár í handriti hjá Pétri okkar Lárussyni og síðan komi hann ekki fyrir augu nema örfárra manna og þá auðvitað orðinn algerlega ótímabær. Þess vegna ætti hv. allshn. ekki að treysta slíkum uppskriftum í sambandi við túlkun þessara laga, heldur setja skýlaus ákvæði í frv., svo að enginn vafi geti leikið á, hvað við er átt. Ég vil endurtaka það, að nú, þegar búið er að fella niður úr frv. ákvæðin um eftirlitið með undirbúningi verðlagningarinnar, það er að segja því, hvernig verðið er myndað, þá er frv. raunverulega orðið ónýtt. Og verði frv. samþ. þannig, þá kemur það að sára litlum notum, og svarti markaðurinn og spillingin í verzluninni verður sú sama eftir sem áður. En hvar er þá Framsfl. með öll sín stóru orð og stríðsyfirlýsingar gegn hvers konar fjárplógsstarfsemi? Ætlar hann að láta eyðileggja þetta mál, þegar möguleikar eru til að fá það samþ. hér í Alþingi, svo að það megi verða að góðu liði í þessari baráttu? Er þessi flokkur kannske fallinn frá fyrri yfirlýsingum? Eða hefur hann gengið á mála hjá íhaldinu og lofað því þeim fríðindum að fella þetta úr frv.?

Í baráttunni við svarta markaðinn í landinu treysti Framsfl. sér ekki til að fá framgengt á Alþ. þeim hliðarráðstöfunum, sem hann setti sem skilyrði fyrir samstarfinu í sambandi við gengislækkunina. Hann lætur í veðri vaka, að verkalýðsflokkarnir skuli hafa úrskurðarvaldið. En það, sem hefur gerzt, er þetta: Uppi á hátindum Framsfl., þar sem þeir gnæfa hæst og ná lengst frá fólkinu og komast næst íhaldinu, þar er farið að semja um að tryggja völd hinna ríkustu, til þess að þeir geti haft verðlagið í landinu að sínu skapi. Um þetta er samið. Svo kemur málið fyrir þingið. Jú, það verður víst barizt á móti svarta markaðinum. Það vantar ekki, það er svo fyrir séð, að verkalýðsflokkarnir hafi úrslitavaldið. En svo koma fram brtt., sem hníga að því að færa frv. í sitt upprunalega form. Hvað segir Framsfl.? Jú, ekki að tala um annað en semja um þetta við Sjálfstfl. Völdin skulu tekin af fólkinu og lögð í hendur fjárhagsráði, þar sem hægari eru heimatökin um baktjaldamakkið. Þegar við flytjum svo brtt. í þá átt, að frv. verði nær þeim tilgangi, sem það hafði upphaflega, þá er sagt, að þær séu að vísu ágætar og raunverulega ekkert á móti þeim, en það er bara búið að semja við íhaldið um að drepa þetta allt saman.

Það átti að ganga svo frá þessu, að neytendur gætu haft úrslitavald í þessum málum, og segir svo um það í grg. fyrir frv. á bls. 4, með leyfi hæstv. forseta: „Neytendur geta þá engan um það sakað nema sjálfa sig, ef verðlagning og verðlagseftirlit er slælega framkvæmt.“ Nú er hins vegar svo um hnútana búið, að verðlagningin er tekin úr höndum fólksins. Og hafi framsóknarmenn virkilega haldið, að eitthvað væri nýtilegt í þessu frv. eins og það er nú orðið, þá ætti þó að mega marka af einu, að það sé nú lítils virði. Það hefur sem sagt ekki heyrzt nein rödd um það frá íhaldinu, að það sé óánægt með frv. í þessari mynd.