25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er til lítils að vera að þrátta um þetta fram og aftur. Eitt er víst, og það er það, að enga óyggjandi úrskurði væri unnt að byggja á ræðum manna um þetta. Lítið dæmi er það, að hv. 2. þm. Reykv. ávarpaði mig sem formann allshn., enda þótt ég hafi alls ekki á hendi formennsku í n. (EOl: Ég bið hv. þm. afsökunar á því að hafa kallað hann formann allshn.) Já, það er hjartanlega fyrirgefið. Hins vegar fannst mér gæta í ræðu hv. 2. þm. Reykv. alvarlegs misskilnings í þessu máli. Hann vantreysti því mjög, að nokkurt tillit yrði tekið til vissra atriða í brtt. hans, ef þau yrðu ekki sett inn í lögin. Ég tel, að það vantraust sé ástæðulaust. Hitt er annað, sem hann talaði um vald verðgæzlustjóra samkv. frv. upphaflega, að það er rangt með farið, og undrar mig stórlega, að hann skuli halda slíku fram. Fjárhagsráð hefur frá því fyrsta átt að annast verðlagsákvarðanir. Það getur hv. þm. séð í 4. gr. frv., og hans tal um þetta fellur þar með um sjálft sig.

Hv. þm. las atriði úr grg. frv., þar sem vikið er að því, að til þess að tryggja neytendum réttlátt verðlag, sé gert ráð fyrir, að þeir fái íhlutunarrétt um skipun verðgæzlustjóra. Þessu er haldið í frv. Og í mínum ummælum áðan var ég ekki að saka dómara um, að þeir dæmdu rangt út frá sínu sjónarmiði, en þeir geta haft misjafnar forsendur til að ganga út frá. Ég vil svo segja hv. þm. það, að hann hefur ekki flutt neina brtt. um starfssvið verðgæzlustjóra, og frá upphafi hefur aldrei verið gert ráð fyrir í frv., að hann hefði verðlagsákvörðunina með höndum.

Hv. þm. Ísaf. (FJ) talaði hér nokkur orð og var óánægður með frv. Ég vil taka fram, að það er misskilningur hjá honum, að ég geri lítið úr ákvæðum varðandi álagningu á það, sem unnið er hér í saumastofum. Ég tel einmitt, að skipun þeirra mála hafi verið í ýmsu áfátt, og tel, að þar verði allmikil bót á ráðin með þessu frv. Hins vegar, ef taka ætti saumastofurnar beint inn í 6. gr., þá þyrfti líka að taka þar inn ýmislegt fleira og engu síður. — Þá fannst hv. þm. á skorta, að séð væri fyrir því, að eftirlitsmenn væru á öðrum stöðum en í Rvík. En um þetta eru ákvæði, og segir t. d. svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórnin skipar verðgæzlustjóra á þann hátt, er síðar greinir í lögum þessum, til þess að hafa eftirlit með verðlagi í landinu.“ Og í síðasta málslið 2. gr. segir svo: „Ríkisstjórnin skipar verðgæzlustjóra samkv. till. nefndarinnar, og verðgæzlustjóri ræður starfsmenn sína og trúnaðarmenn í samráði við hana.“ M. a. þá líka eftirlitsmenn hvarvetna um landið. Og ég ætla þannig, að fullkomlega sé fyrir þessu séð.

Þá eru í 3. gr. og 5. gr. ákvæði, sem rýmka mjög um það, að hægt sé að fela sérstökum mönnum störf, sem vinna þarf lengra burtu.

Hv. þm. drap enn á það, að ákvæði frv. mundu brjóta í bága við eldri lög um fjárhagsráð. En í niðurlagi II. kafla l. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Lög þessi öðlast þegar gildi, og fellur þá niður umboð verðlagsstjóra, starfsmanna hans í verðlagseftirlitinu og trúnaðarmanna.“ Ég ætla, að þetta þurfi ekki að valda neinum erfiðleikum gagnvart eldri lagaákvæðum. Sé hins vegar svo, að þessi ákvæði kæmu í bága við einhver ákvæði, þá fer um það eftir venjulegri reglu, að hin nýrri lagasetning gildir. Slíkt er ekkert nýtt. Oft yfirsést mönnum við setningu nýrra laga að tilgreina hvert atriði í eldri lögum, sem þar með breytist. En slíkt þarf ekki að verða á nokkurn hátt til tjóns.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar að sinni, enda virðast mér þessar umræður vera hálfgert karp.