25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Jörundur Brynjólfsson:

Ég skal vera stuttorður. — Hv. þm. Ísaf. heldur því enn fram, að verðgæzlustjóri eigi að vera bundinn við Reykjavík um verðlagseftirlit. Ég benti honum þó á 1. gr. frv., þar sem stendur, að hann eigi að hafa eftirlit með verðlagi í landinu. Þó að Reykjavík sé stór bær, þá hefur hún þó hingað til ekki verið talin landið allt. Í 2. gr. sést, að verðgæzlustjóri á að ráða starfslið sitt, í samráði við ríkisstj. að vísu, og vitaskuld felur hann trúnaðarmönnum sínum og starfsliði verkefni þau, sem þarf að rækja. Ég held því, að eigi þurfi frekar um þetta að þrátta.

Hvað áhrærir störf fjárhagsráðs, hvort þau verði því ofvaxin, þá skal ég engan dóm leggja á það. Það hefur verið talað um fækkun starfsmanna. Má þá auka störf ýmissa manna þar. Hefur verið talið, að það yrði auðvelt. Ef það yrði í reyndinni erfitt, þá mundu menn reyna að létta af öðrum störfum hjá sér.

Þá kem ég næst að hv. 2. þm. Reykv. (EOl), Hann dró nú í land út af fyrri fullyrðingum sínum, en heldur áfram að þrátta um það, að verðgæzlustjórinn geti eigi nógsamlega eftir frv. kynnt sér verðlag í landinu, þ. e. innkaup á vöru o. fl. þess háttar, eins og vera þyrfti. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Í 3. gr. frv. er talað um það, hvað verðgæzlustjóri skuli gera. Þar er minnzt á verðlagseftirlit, daglegan rekstur í sambandi við það, og hann á að vekja athygli fjárhagsráðs á því, ef verðlag er mismunandi, t. d. sé sams konar eða svipuð vara seld með mismunandi verði, og síðar meir á fjárhagsráð að byggja innkaup sin á þeim upplýsingum. Þá er 9. gr. um vald það, sem verðgæzlustjóra er fengið í hendur, og á hann rétt á að heimta af aðilum þeim, sem mál þessi skipta einhverju, skýrslur og gögn, og hvergi á fjárhagsráð að byggja ákvarðanir sínar á öðru en þessu. Dettur nú hv. 2. þm. Reykv. í hug, að fjárhagsráð byggi ákvarðanir sinar á öðru en því, sem embættismanni þessum er fengið sérstakt vald í hendur til að leita upplýsinga um, varðandi vöru erlendis frá og hér heima? Það verður vitaskuld að byggja á þessum upplýsingum hans. Er þess vegna misskilningur, að það skorti á með vald til þess að afla þessara gagna. Ég vona og, að þessi maður, er þannig verði skipaður sem í frv. greinir, kunni glögg skil á framkvæmd verðlagseftirlitsins og framkvæmi eftir því. Það er hér um eins konar hártoganir að ræða í öllu því, sem þessi hv. þm. kemur með. Honum þótti á skorta, að fjárhagsráð mundi geta fundið upp á því að fela öðrum manni vald skv. 5. gr. frv. En ég er ekki sammála um, að fjárhagsráð þurfi að fela öðrum trúnaðarmanni en verðgæzlustjóra það vald. Enginn maður mun hafa til að bera slíkan kunnugleika og myndugleika sem hann, og þá ætla ég vel fyrir öllu séð, þar sem hann er.

Ég sé svo eigi ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Mér virðist sem orð hv. þm. sýni meir viðleitni að segja eitthvað um málið og gera það tortryggilegt en þau séu á rökum reist. — Viðvíkjandi hinni skriflegu brtt. ætla ég, að samþykkt hennar skipti engu máli, og ætla því, að bezt muni að samþykkja frv. óbreytt.