25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Ég held, að hv. 1. þm. Árn. sé farinn að ganga fulllangt í því að reyna að verja málstað, sem hann veit, að er óverjandi. Hann fór bókstaflega að reyna að snúa út úr og rangtúlka málið. Ég held, að verðlagningarákvarðanir heyri eigi undir verðgæzlustjórann skv. frv. Það er ekkert atriði í frv., sem gefur honum vald til að heimta, t. d. af ákveðnu firma, skýrslur um verðlagninguna. Hann getur eigi krafizt þess, að selt verði á öðru verði, en fjárhagsráð ákveður. Það á að fella burt. hvernig verðlag sé ákveðið. Ef firma hefur ekki brotið þau ákvæði, getur hann ekki komið til þess að athuga verðlagið sjálft. Starf verðgæzlustjóra á að vera eftirlit, en ekki það að gera tillögur til fjárhagsráðs. Annað atriðið er um samanburð og mismunandi verð í búð, sem verðgæzlustjóri á að athuga, en hann á eigi að hafa með höndum rannsókn á sjálfri verðlagsmynduninni. Ég held, að það sé þýðingarlaust að ætla sér að blekkja menn á því, að Sjálfstfl. hafi gert kröfu til að sleppa tveim síðustu málsgr. í 3. gr. Allt vald, sem verðlagsstjóra var gefið, sbr. 9. gr., var að heimta af öllum firmum skýrslur um verðlag og gera tillögur til fjárhagsráðs. Hann er búinn að missa þetta vald. Þannig er staðreyndin í málinu. Hins vegar, vegna þess hve djúpt hv. 1. þm. Árn. tók í árinni, að fjárhagsráði sé eigi ætlað að fela öðrum manni vald hans, er bezt, að við þm. setjum fyrir þann leka og legg ég því fram skriflega brtt. um það, að í stað orðanna „ákveðnum trúnaðarmanni“ í 5. gr. komi: verðgæzlustjóra. — Ég skal viðurkenna, að yrði það gert, þá mundi starf verðlagsstjóra breytast þó nokkuð, hann fengi þó nokkuð móts við það, sem hann ella hefði, að athuga sjálfa verðlagsmyndunina. Því vona ég, að hv. 1. þm. Árn. geti fallizt á þessa brtt. mína, því að það kemur eigi til mála að fela neinum manni öðrum þetta vald.