04.05.1950
Neðri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

139. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka sjútvn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli. Ég þarf nú ekki að hafa um þetta mörg orð, þar sem þm. Borgf. hefur gert skýra grein fyrir málinu. En eins og hann tók fram, þá óska hlutarsjómenn og útgerðarmenn í Bolungavík, að bilið milli almenna sjóðsins og þeirra eigin sjóðs verði brúað, og þetta hefur sjútvn. fallizt á. Hins vegar vildu Bolvíkingar líka fá að halda áfram starfsemi síns sjóðs við hliðina á almenna sjóðnum, en um það atriði hefur ekki verið tekin afstaða í n., enda má segja, að það sé mál síns tíma, og hygg ég, að útgerðarmenn og sjómenn, sem hér eiga hlut að máli, geti vel sætt sig við þessa lausn.

Ég vil svo leyfa mér að ítreka þakkir mínar til sjútvn. og vænti, að þm. geti orðið sammála um að leyfa brautryðjendum í þessu máli að starfrækja sinn sjóð áfram.