11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

139. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það var háð sjómannaverkfall í Bolungavík árið 1939, og stóð þá deilan um hlutaskipti þar. Það hafði verið mjög tregt með aflabrögð á þeirri vertíð. Útgerðarmenn stóðu þar þá höllum fæti, en sjómenn þó verr staddir vegna aflaleysisins. Samdist þá um það þar á staðnum, að stofnaður yrði sjóður, sem fengi 2% af aflaverðmæti óskiptu, og skyldi starfsemi þessa sjóðs stjórnað af fulltrúum útgerðarmanna og sjómanna í Bolungavík, og skyldi verða veittur styrkur úr sjóðnum, þegar aflabrestur yrði, og tekjum sjóðsins þannig varið til þess að bæta hlutarsjómönnum upp, þegar þeir stæðu sem höllustum fæti. Þessi sjóður hefur starfað þarna síðan.

En þegar lögin voru sett um hlutatryggingasjóði 1943, var gerð breyt. á reglugerð tryggingasjóðsins þarna í Bolungavík, og komst hann þannig undir ákvæði l. um hlutatryggingafélög. Upp frá því greiðir ríkissjóður 0,7% af aflaverðmæti til hlutatryggingafélagsins á móti þeim 2% af óskiptum afla, sem útgerðarmenn í Bolungavík hafa greitt í sjóðinn þar. Aftur á móti hefur ríkissjóður ekki greitt neitt á móti heimaframlögunum í sjóðinn á árabilinu 1939–44.

Nú, þegar á síðasta þingi að afgreidd voru lög um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, var svo ákveðið, að lög um hlutatryggingafélög yrðu afnumin. Frá þeim tíma hefur hlutatryggingasjóðurinn í Bolungavík starfað áfram, en ekki fengið neitt fjárframlag úr ríkissjóði á móti framlagi í sjóðinn frá útgerðarmönnum og sjómönnum heima fyrir. Í l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins var svo ákveðið, að sú löggjöf kæmi ekki til framkvæmda fyrr en að ári liðnu, og hefur því sjóðurinn í Bolungavík byggt starfsemi sína einungis á eigin framlögum manna á staðnum síðasta ár. En eins og kunnugt er hefur aflatregða verið nær óminnileg þar á síðustu vertíð og hagur sjómanna sjaldan, ef nokkurn tíma, verið bágbornari en einmitt nú. Hefði því verið full þörf á, að hlutatryggingasjóðurinn þar hefði verið vel fjáður og getað hlaupið undir baggann með sjómönnum þar nú. Þess vegna er þetta frv. fram borið, og er af flm. þess, hv. þm. N-Ísf., farið í því fram á, að lögin um hlutatryggingafélög frá 1943 skuli koma til framkvæmda að nýju og gilda frá 1. jan. þ. á. til ársloka 1952, að því er snertir tryggingasjóð sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavik, sem tók til starfa þar 1939, þannig að þeir fengju mótframlag á móti sínu eigin framlagi til tryggingasjóðsins, ef þeir vildu leggja það á sig í viðbót við þeirra framlag, sem þeim er lagt á herðar að inna af hendi við hlutatryggingasjóð bátaútvegsins. Yrði þetta aukaframlag vegna hlutatryggingasjóðsins heima fyrir til bóta, ef aflaleysi bæri að höndum, en undir öllum kringumstæðum tækju þeir á sig tvöfaldar byrðar. — En með því móti, ef Alþ. breytir frv. endanlega þannig frá þeirri upphaflegu mynd sinni, eins og því var breytt í hv. Nd., að l. um hlutatryggingafélög frá 1943 skuli gilda fyrir tryggingasjóð sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík fyrir árið 1950 eingöngu, en ekki eins og beðið var um, — og þannig liggur frv. nú fyrir, — þá væri þó með þessu móti mögulegt, að sjóðurinn í Bolungavík fengi mótframlagið úr ríkissjóði, 0,7% framlagið, fyrir vetrarvertíðina, sem nú er nýliðin. Og ég lít svo á, að þetta sé mjög augljóslega sanngirnismál. Þetta mundi kosta ríkissjóðs 10–12 þús. kr. fjárframlag. Hefur hv. fjvn. talið það svo sjálfsagðan hlut, að þetta frv. verði að l., að hv. fjvn. hefur nú flutt brtt. við fjárl. um, að 12 þús. kr. upphæð sé tekin upp á útgjaldahlið fjárl., til þess að mæta þessum væntanlegu útgjöldum, ef frv. þetta verður samþ.

Sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég geri ráð fyrir, að viðkomandi meðferð þessa máls komi fram réttur skilningur hv. þm. gagnvart þessari viðleitni sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík um að tryggja afkomu sjómanna, þegar aflabrest ber að höndum, sem þeir sýndu löngu áður en lög voru sett um þetta efni almennt í landinu, og þar sem útgerðarmenn og sjómenn þar á staðnum hafa að langmestu leyti haldið uppi þessari starfsemi með eigin framlögum, en starfsemin hefur þó fengið nokkra viðurkenningu af löggjafarvaldinu, þar sem sjóðurinn hefur fengið framlag nokkurt úr ríkissjóði gegnum l. um hlutatryggingafélög, — og ég vænti þess vegna, að frv. þetta verði samþ.