11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

147. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég stend upp aðallega vegna þess, að hv. frsm. hefur láðst að geta þess, sem óskað var í sambandi við afgreiðslu málsins í n., að fyrir þessari hv. d. liggur einnig frv. á þskj. 302, sem er frá hv. þm. Str., um að taka Selsvör inn á hafnarl. Að þessi till. til breyt. á hafnarl. var ekki tekin hér upp í þessu þskj., sem hér er um að ræða í sambandi við Hjarðardalsbót í Önundarfirði, er vegna þess, að það hefur orðið að samkomulagi við hv. flm. þess máls, að það mál yrði ekki látið fara lengra, þar sem búizt er við, að aðeins sé tekin fjárveiting til þess staðar í eitt skipti fyrir öll, sem fjvn. hefur fallizt á, að tekin sé upp í fjárl. að þessu sinni, enda tekið fram í brtt. á þskj. 699, að þetta sé í eitt skipti fyrir öll. Þetta vildi ég láta koma fram, vegna þess að ég vil ekki láta líta svo út sem sjútvn. sé andstæð því frv., sem hér var borið fram um þetta, eða á móti því, að þetta sé tekið inn á hafnarlög. En þetta hefur orðið að samkomulagi við hæstv. landbrh., að þessu yrði hagað eins og ég greindi frá.

Út af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, vil ég taka fram, að hans ræða var byggð á ákaflega miklum misskilningi. Mér er persónulega kunnugt um, að það fé, sem varið hefur verið til lendingarbóta á landinu, hefur bætt stórkostlega úr fyrir mönnum og létt lífsbaráttuna fyrir þá menn, sem búa úti í dreifbýlinu, og kannske ekkert minna heldur en það, sem gert hefur verið fyrir það fé, sem varið hefur verið til vega og síma. T. d. um nauðsyn bryggjugerða vil ég nefna Örlygshöfn, sem er við Patreksfjörð sunnanverðan, þar sem stórt þorp, Vatneyri, er handan við fjörðinn. Viðkomandi Örlygshöfn er það svo, að þar hafa nokkrir bændur tekið á sig þá þungu byrði að standa undir því að greiða helming af rúmlega 100 þús. kr. kostnaði, sem það kostar að byggja bryggju þarna í Örlygshöfn, svo að hægt sé að hafa daglega mjólkurflutninga þaðan til kaupendanna í þorpinu hinum megin fjarðarins. Þeir, sem þarna selja mjólk, bjuggu áður við þau skilyrði, að þeir urðu að senda með línubyssu línu út til flutningabáts að vetrinum og draga þann veg mjólkurbrúsana gegnum brimgarðinn, áður en þeir fengu þessa hafnarbót. Og ég veit, að hv. 1. þm. N-M. er svo velviljaður bændastétt landsins, að hann ætlast ekki til þess, að bændur landsins búi við slík kjör. Og ég vænti, að þegar hann fær þær upplýsingar, að þetta er ekki eini staðurinn, þar sem líkt þessu stendur á, þá verði hann með því að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir.