16.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

147. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. lýsti hér, að það lá fyrir sjútvn. einnig beiðni um að taka Selsvör inn á lög um hafnargerðir og lendingarbætur. En ég hafði ekki ástæðu til að ræða það atriði hér, þar sem n. lagði ekki til, að því frv. yrði vísað hér til aðgerða þessarar hv. d., heldur hafði verið tekin upp till. um fé til hafnargerða og lendingarbóta vegna þessa staðar í eitt skipti fyrir öll, í brtt. við fjárl. Ef það sama hefði fengizt viðkomandi Hjarðardalsbót í Önundarfirði, að tekin hefði verið upp till. um að taka inn á fjárl. greiðslu til bryggjugerðar þar, sem staðið hefði getað undir því, sem þar er fyrirhugað, þá hefði getað farið á sama veg með frv. það, sem hér liggur fyrir nú, eins og um frv. viðkomandi Selsvör. En það fékkst ekki, viðkomandi Hjarðardalsbót í Önundarfirði, og þurfti því að fara með þetta mál inn í hv. þd. hér til þess að reyna að fá þennan stað tekinn inn á hafnarlög, og þá síðar væntanlega tekinn á fjárlög.

Og viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. N-M. var að tala hér í sambandi við þetta mál, þá er ég ákaflega undrandi yfir því að heyra, hvernig afstaða hans er í þessum efnum og til þessa máls, og skil ég bókstaflega ekki afstöðu hans í málinu. Hér er um mikilsverða fjárgreiðslu að ræða, til hagsbóta fyrir bændur við vestanverðan Önundarfjörð. Og ég er sannfærður um, að þeir kunna honum enga þökk fyrir afstöðu hans í málinu — bændur í Valþjófsdal, í Holti og í Bjarnardal og Korpudal o. fl., sem þurfa að koma mjólkinni á markaðsstað að vetrinum. Og það er ekkert vit í því að ætla þeim í framtíðinni að koma sinni mjólk að vetrinum í kringum allan fjörðinn. Og í þessu sambandi skiptir það engu máli, þó að Önundarfjörður sé mjór fjörður. Önundarfjörður er a. m. k. það breiður, að ekki verður stokkið yfir hann, og ekki getur hv. 1. þm. N-M. heldur kastað mjólkurbrúsum yfir hann né aðrir. Og Önundarfjörður er nógu djúpur til þess, að Páll Zóphóníasson veður ekki þann fjörð milli landa. — Það má vel segja, viðkomandi Svalbarðseyri, að þar sé ekki mjög langt á milli hafnargerða. En það er miklu lengra inn fyrir Önundarfjörð til Flateyrar frá Hjarðardalsbót heldur en frá Svalbarðseyri til Akureyrar inn fyrir Eyjafjörð. — Ég nenni ekki að hafa fleiri orð til þess að útskýra þetta fyrir hv. 1. þm. N-M. Hann á að hafa skilning á þörfum bænda í þessu efni, þó að hér sé ekki um að ræða kynbætur búfjár eða annað það, sem hann fjallar um sjálfur.