17.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

147. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hreyfði þessari athugasemd til að ræða málið almennt. Og einmitt Svalbarðsströnd og Akureyri eru gott dæmi þess, að ríkisstj. hefur ekki gert rétt, þegar hún baksar við að gera tvær hafnir nærri hvora annarri og meira eða minna ófullkomnar. Ég tel þessa stefnu ekki rétta, sem fylgt er. — Ég tel heldur ekki rétt að gera bryggju á Stóra-Árskógssandi og svo aðra dálítið sunnar og þá þriðju á Dalvík. Þetta er stefna, sem Alþ. hefur fylgt og er á enn. Það getur vel verið, að það sé rétt að hafa þetta svona í Önundarfirði eins og í þessu frv. er gert ráð fyrir, þegar borið er saman við það, sem gert hefur verið. En ég tel þessa stefnu, sem fylgt hefur verið, varhugaverða. Ég tel réttara að hafa góða bryggju á Akureyri heldur en að vera að kasta hundruðum þúsunda í bryggjur á öllum stöðum, þar sem hugsanlegt er, að skip komi að við Eyjafjörð. (HV: Þetta frv. er um smábátabryggju, en hér er ekki að ræða um stórt hafnarmannvirki.)