06.02.1950
Efri deild: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

106. mál, útsvör

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson.) :

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir tilmæli hæstv. dómsmrh., að n. sú, sem málið fær til meðferðar, sendi það til umsagnar þeirra aðila, er hafa aðstöðu til að láta í té umsögn um frv. þetta sem fljótast. Er sjálfsagt, að Reykjavík og hrepparnir í nágrenni hennar fái það til meðferðar. Svo vil ég og benda n. á, að sjálfsagt verður, að sveitarfélagasambandið fái málið líka til umsagnar. Málið hefur verið rætt þar, og mér er eigi grunlaust um, að samkomulag muni vera innan þess um það.

Út af ummælum og spurningu hv. 1. þm. N-M. (PZ) vegna starfa mþn. vil ég taka fram, að misskilningur er, að hún hafi haft útsvarsl. sérstaklega til meðferðar, en ráðgert var, að n. athugaði þau í sambandi við endurskoðun skattal. En svo var ráðgert í upphafi starfa hennar, að hún héldi sér einvörðungu við skattal. Útsvarsl. voru því eigi athuguð í n., eða annað, og kynnti hún sér eigi afstöðu sveitarfélaganna í því efni.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að þetta skipti ótal fleiri sveitarfélög máli en þau, er ég hef bent á. Raunar getur verið, að þetta skipti þau einhverju máli. En eftir þeim upplýsingum, er ég hef fengið, veit ég ekki betur en útkoman úr slíkri skiptingu mundi eigi svara kostnaði eða fyrirhöfn nema hér í nágrenninu. Hv. þm. nefndi Siglufjörð sem dæmi. Í fljótu bragði kann að líta svo út sem það sé rétt, en hefðum við tölur til taks, þá held ég, að við sæjum, að þetta skipti minna fyrir Siglufjörð en það skiptir einstaklinga að starfa utan heimilissveitar sinnar a. m. k. þrjá mánuði af árinu eða vera þann tíma lögskráðir á skip utan heimilissveitar sinnar. Það er vitað, að sjómenn og síldarfólk er sjaldan eða aldrei þann tíma á Siglufirði. (PZ: Þeir munu þó vera skráðir í þrjá mánuði á skip.) Ég held, að Siglfirðingar hafi aldrei farið fram á skiptingu útsvara. Þess eru a. m. k. engin dæmi. Kann að vera, að svo sé í Hornafirði, en ég efast um það.

Þá minntist hv. þm. á tvö sérstök og alveg sláandi dæmi: Hvað réttlætti það, að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi allt útsvar vitamálastjórans, og hvað hitt, að eitthvert sveitarfélag fái útsvar bankastjóra, sem vinnur annars staðar. Þetta er fullt réttlæti, því að búsetusveitarfélögin þurfa að bera allan kostnað vegna þessara manna. Þau þurfa að sjá fyrir skóla handa börnum þeirra, leggja vegi o. s. frv. Auk þess þurfa þau að greiða skatt til almannatrygginganna fyrir hvern mann innan hvers sveitarfélags. Er því sjálfsagt réttlæti í því, að þessi sveitarfélög fái tekjurnar af útsvörum þessara manna. Ég held því, að þessi dæmi, sem hv. þm. nefndi, sanni fyllilega réttmæti þessa frv.

En að lokum vil ég taka undir tilmæli hæstv. dómsmrh., þau, að frv. verði frá hv. allshn. látið ganga til umsagnar Reykjavíkurbæjar og annarra sveitarfélaga og félmrn., og er mér ekki grunlaust um, að það gæti leitt til farsælla lykta á málinu.