14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

106. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og segir í nál. á þskj. 524, höfum við hv. 11. landsk. þm. ekki getað orðið samferða meðnm. okkar um afgreiðslu þessa máls. Ástæðan er aðallega sú, að útsvars- og skattalöggjöfin er orðin svo margbrotin, að erfitt er að gera sér grein fyrir, hver áhrif það muni hafa, þegar einstök ákvæði hennar eru tekin út, án þess að heildarskoðun skattalöggjafarinnar sé tekin um leið. Það hefur verið unnið að því undanfarið að bæta löggjöfina á þessu sviði, og það hefur tvívegis verið lagt fram frv. til breyt. á útsvarsl., en ekki verið samþykkt, vegna þess að nauðsynlegt hefur verið talið að breyta skattalöggjöfinni samtímis og endurskoðun hennar fari fram um leið. Þeirri endurskoðun er ekki lokið, en hlýtur nú brátt að verða lokið. Mér er það ljóst, að skipting útsvaranna milli staða kann á einstöku stöðum að verka óeðlilega og jafnvel til tjóns, en þetta fyrirkomulag, sem tekið var upp á sínum tíma. þótti nauðsynlegt, og ef nú kunna að finnast einhverjar betri reglur til þess að fara eftir, þá á að setja þær um leið og skattalöggjöfinni í heild er breytt. Ég veit það t. d. viðvíkjandi mínu kjördæmi, Seyðisfirði, að þá mundi þessi breyt. verka til óhagræðis vegna útgerðar botnvörpungsins Ísólfs. Einmitt þetta sýnir það ljóslega, að það er ekki rétt hjá hv. 6. landsk. þm., að atvinna sé alltaf nóg í bænum, þegar utanbæjarmenn sæki þangað atvinnu. Á Seyðisfirði vantaði æfða togarasjómenn, því að ekki er fært að halda úti togara nema mennirnir séu æfðir, en það væri þá ekki hægt fyrir Seyðisfjörð nema að fá menn úr öðrum stöðum, að minnsta kosti fyrst í stað. Ég geri einnig ráð fyrir því, þó að ég viti það nú reyndar ekki með vissu, að þessi breyting mundi verka mjög illa á Siglufjörð, því að það er vitað, að slíkir staðir þurfa að leggja í mikinn kostnað vegna framkvæmda, sem nauðsynlegar eru fyrir þann tíma árs, sem atvinna er þar rekin, og hún er rekin að miklu leyti af mönnum, sem ekki eiga heima þar. Ég vil leyfa mér að benda á það, að sá aðilinn, sem ætti að vera einna viðsýnastur um þetta efni, Samband íslenzkra sveitarfélaga, tekur það fram í fskj. II. í nál. meiri hl. allshn., að stjórnin telur, að það verði að skoðast vafasamur vinningur við útsvarslöggjöfina í heild að samþ. frv. á þskj. 285, því að samþykkt þess geti tafið fyrir nauðsynlegum breyt. á l. Þetta höfum við tekið upp í nál. minni hl., að viðsjárvert sé að taka þetta eina ákvæði út af fyrir sig og breyta því, því að það geti tafið fyrir nauðsynlegri endurskoðun á útsvars- og skattal. Ég tel því, að það sé upplýst, að þessi skiptingarregla sé til óhagræðis, og þess vegna tel ég rétt, að ekki sé flanað að samþykkt frv., en tel rétt, að málið fái sinn gang og fari í gegnum hendur þeirra aðila, sem meiri þekkingu hafa á þessum málum, en hægt er að ætlast til af einni þn., og leggjum við þess vegna til, að málið verði afgreitt með þeirri rökst. dagskrá, sem greinir á þskj. 524.