14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

106. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Sem frsm. meiri hl. n. vil ég þakka þær góðu undirtektir, sem frv. hefur fengið. Það er aðeins einn þm., sem hefur látið í ljós, að vegna þess hvernig nú standi á árstíð, geti hann ekki verið með frv., sem muni þó leiðrétta misrétti, sem eigi sér stað. Hv. 1. þm. N-M. telur, að það séu svo mörg sveitarfélög búin að jafna útsvörum núna, að þau megi ekki við því að missa af rétti sínum til hluta útsvara frá öðrum sveitarfélögum. Ég held, að þetta sé samt ástæðulaust. Ég held, að það standi betur á árstíð, en hann vill vera láta, og vil því máli til stuðnings vísa til ákvæða útsvarsl., 21. gr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalniðurjöfnun útsvara fer fram á tímabilinu febrúar-maí, að báðum mánuðum meðtöldum, eftir nánari ákvörðun sýslunefnda og bæjarstjórna. Þó getur atvinnumálaráðuneytið heimilað hreppsnefnd, eftir beiðni hennar, að láta aðalniðurjöfnun útsvara fara fram síðar á árinu, ef ríkar ástæður mæla með því.“

Með öðrum orðum, útsvarsjöfnun þarf ekki að vera lokið fyrr en í maílok og hægt að fá útsvarsálagningu frestað þar til lengra fram á árið. Og ég veit ekki betur, en mörg sveitarfélög hafi ekki jafnað útsvörum fyrr en seint í maí eða snemma í júní. Um bæjarfélögin er það að segja, að þau eiga að ákveða heildarupphæð útsvaranna í nóvemberlok, en þetta hefur dregizt allmjög undanfarin ár, og sum eru ekki enn búin að ákveða heildarupphæð útsvaranna, hvað þá að skipta þeim niður. Ég held því, að hv. þm. þurfi ekki að óttast þetta. Það er sem sé þannig í framkvæmd, að sveitarfélögin ganga síðar frá sínum fjárhagsáætlunum, en þeim ber, útsvarsjöfnun fer síðar fram en til er tekið og má fara fram í maílok. Eins og við þekkjum hér á Alþ., eru fjárl. nú afgreidd síðar, en ber að afgreiða þau. Þau eiga að vera afgreidd áður en fjárhagsárið byrjar, en á því hefur orðið æði mikill misbrestur undanfarin ár, t. d. er nú lítið sem ekkert farið að byrja á afgreiðslu fjárlaga, sem eiga að gilda fyrir árið 1950, og verður henni sennilega ekki lokið fyrr en einhvern tíma í maímánuði. Mér finnst engin rök felast í frávísunartill. hv. minni hl. og legg því til, að hún verði felld.