21.04.1950
Efri deild: 91. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

106. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál var til 2. umr., þá sá ég mér ekki fært að greiða atkv. með neinni af greinum þess. Ég greiddi einnig atkvæði gegn brtt., sem þá var borin fram, en með því að vísa frv. til 3. umr., enda var það engin úrslitaatkvgr., og gerði ég það í þeirri von, að málið yrði athugað nánar í n., t. d. milli 2. og 3. umr., en það virðist ekki hafa verið gert að neinu ráði. Það er nú svo um gömlu sveitarstjórnarlögin, sem giltu um útsvarsmál einnig til ársins 1926, að þau voru sett meðan þjóðhættir voru aðrir en nú og menn sátu yfirleitt við sín heimili og höfðu þar atvinnu sína. En svo breyttist þetta smátt og smátt, og farið var að gefa heimild til þess að leggja útsvörin á þar, sem menn stunduðu atvinnu eða ráku atvinnurekstur, og þetta var komið nokkuð út í öfgar, og þá var fyrst farið að setja ýmsar hindranir 7 veginn, t. d. eins og að ekki mætti leggja á útgerð báta við sama fjörð eða flóa, eins og sett var í lög einu sinni, og út af þessu komu fram hér á Alþingi lagafrv. um að stækka Faxaflóa, og kom m. a. fram brtt. um það, að Faxaflói skyldi ná allt austur að Ölfusárósum. Upp úr þessu voru svo útsvarslögin sett árið 1926, þar sem það var upp tekið að reyna að skipta útsvörum, sem eðlilegast og sanngjarnast þætti, milli heimilissveitar og atvinnusveitar. Ég skal játa, að þegar þessi lög voru sett, sem að stofni til eru enn í gildi, þá var ég ekki ánægður með þau og bar fram nokkrar brtt. Ég taldi t. d. eðlilegra, að atvinnurekstur væri útsvarsskyldur þar, sem hann væri rekinn, en á einstaka menn skyldi lagt sem mest í heimilissveitinni, þótt þeir hefðu atvinnu annars staðar. Hitt varð ofan á, að útsvörum af atvinnutekjum skyldi skipt á milli heimilissveitar og atvinnusveitar af sumum atvinnurekstri, en af öðrum atvinnurekstri þar, sem hann væri rekinn. Í þessu varð ekki fullkomið samræmi. T. d. á samkv. 8. gr. útsvarsl. að leggja á atvinnurekstur þar, sem hann er rekinn, samkv. a- og b-lið, ef maður hefur heimilisfasta atvinnustofnun, t. d. búrekstur, hversu lítill sem hann er, en aftur á móti samkv. 9. gr. á að skipta útsvarinu, ef önnur atvinna er rekin en getið er um í 8. gr., t. d. verzlun, selveiði, hvalveiði, síldarverkun o. s. frv. Útsvörum af þessum atvinnurekstri á að skipta, og verður varla séð samræmið í þessum ákvæðum, að leggja skuli á atvinnurekstur þar, sem hann er rekinn, ef hann er t. d. búrekstur, hve lítill sem hann er, en atvinnusveit fær aðeins hluta útsvarsins, þótt um sé að ræða t. d. síldarverkun eða rekstur síldarverksmiðju. Nú finnst mér, að ef samþykkja á þetta frv., en efni þess er það, að útsvör þeirra, sem stunda atvinnu í annarri sveit en heimilissveit, renni til heimilissveitar, en skiptingunni er haldið hvað atvinnurekstur snertir, — þá væri eðlilegt að taka skrefið út og leyfa það yfirleitt, að útsvör séu lögð á atvinnurekstur þar, sem hann er rekinn, en á atvinnutekjur, laun, væri lagt í heimilissveit. Ég hef ekki haft aðstöðu til að rannsaka, hvort einstök sveitarfélög hefðu af þessu hag eða óhag, en með því að samþ. frv. óbreytt, þá eru sum sveitarfélög svipt æði miklum tekjum. Því hefur verið haldið fram, að þetta væri réttmætt vegna þess, að menn, sem leituðu atvinnu í annarri sveit, gerðu það aðeins af því, að þar vantaði fólk, en það þarf ekki að vera svo í öllum tilfellum. Ég hygg því, að það hefði verið réttmætt að bíða með málið enn um sinn og athuga það betur. Mér finnst annaðhvort a. m. k., að það eigi að láta útsvarslögin órótuð eða breyta þeim þá meira og ekki eingöngu í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, heldur eigi að leyfa rýmri álagningu á atvinnurekstur, sem rekinn er í viðkomandi sveit. Í því væri meira samræmi. Hvað sem um það er, hve réttmætt er, hvað hver sveit fái, þá er það staðreynd, að gjaldstofnar allra sveitarfélaga eru raunar ekki aðrir en tekjur, sem aflað er í sveitarfélaginu. Ef t. d. til væri hreppur, þar sem væru tómir öreigar, þá gæti sá hreppur engin útsvör fengið og kæmi með einhverjum hætti á ríkisframfæri. Mér finnst dálítið varhugavert að breyta útsvarsl. eins og nú stendur til, t. d. því, eins og á sér stað víða, að þegar maður hefur allar sínar tekjur, eða næstum allar, úr öðru sveitarfélagi en hann er búsettur í, að þá eigi heimilissveit að fá allt útsvarið, en dæmi um þetta eru alls ekki svo fá og verða fleiri vegna bættra samgangna. Það munu t. d. ekki svo fá dæmi þess, að menn, sem vinna í bæjum, eigi heima utan bæjarins. Ef ekki verður fallizt á það að bæta þetta með því að gera atvinnurekstur meira útsvarsskyldan í atvinnusveit, þá er of langt gengið í frv., t. d. í því, að engin takmörk eru sett, þótt allar tekjur mannsins séu í atvinnusveit, en engar úr heimilissveit, og þá skuli allt útsvarið eiga að renna til heimilissveitar. Það má ekki minna vera en þarna séu einhver takmörk, t. d. að útsvarinu sé skipt milli atvinnusveitar og heimilissveitar, ef allar eða nær allar tekjur mannsins eru fengnar í atvinnusveit. Ég get hugsað mér, að þetta frv. geti orðið til þess, að kannske meiri skorður verði settar, en áður við því, að fólk fái að stunda atvinnu utan heimilissveitar. Þegar atvinnuleysi er, hafa verkalýðsfélögin oft reynt að takmarka það, að utansveitarmenn fengju atvinnu, og þetta frv. verður til þess að auka viðleitnina í þá átt. Og svo er annað. Ef litið er til dómstólanna og á það, hvernig dómar hafa fallið um þessi mál, þá gæti ég haldið, að þetta frv. yrði til þess að fjölga málaferlum um þessi efni og þeim dómum um þau, sem við leikmenn skiljum ekki. Ég man eftir dómi, sem gekk um það, að Jón heitinn í Stóradal ætti heima í Reykjavík, á meðan hann átti sæti í nefnd til að úthluta kreppuhjálp til bænda. Það vissu allir, að hann átti heima í Stóradal, hafði þar sitt bú og átti þar sína konu og börn, en atvinnan, sem hann stundaði hér, var aðeins bráðabirgðaatvinna. Hæstiréttur dæmdi engu að síður, að hann ætti heima í Reykjavík og virðist sá dómur hafa byggzt á því, að meiri hluti tekna hans væri fenginn þar. Nú, sjálfur hef ég verið dæmdur til að eiga heima á Akureyri, þótt ég byggi mínu búi vestur í Öxnadal, en að vísu hafði ég nokkra atvinnu á Akureyri. Þótt mér komi það ekki beint við, þá vil ég benda á það, að breyting sú, sem gerð var á frv. við 2. umr., er ekki í samræmi við hugsun frv. Þessi breyting er hortittur í málinu. Ef heimilissveit á á annað borð að fá allt útsvarið, hvernig stendur þá á því, að atvinnusveit á að fá þann hluta útsvarsins, sem orsakast af því, að viðkomandi hefði fengið hærra útsvar þar en í heimilissveit? Ef samræmi ætti að vera í frv., þá ætti heimilissveit að fá þetta útsvar. Annað er órökrétt. Ég veit ekki, hvað hv. allshn. segir um þetta, en ég vildi óska þess, að n. athugaði málið að nýju og umr. yrði frestað. Það hefur verið gert um ýmis mál undanfarna daga. Það fer náttúrlega að verða vafasamt að fresta málum, þegar svo langt er liðið á þingtímann, en það virðist þó mega um þetta mál eins og önnur, og vildi ég því biðja n. að athuga, hvort hún gæti ekki fallizt á að fara vægar í sakirnar í þessu frv., t. d. með því að halda skiptingu útsvarsins, þegar allar eða nær allar tekjur eru fengnar í atvinnusveit, eða þá að ganga beint til verks, þannig að tekjur af atvinnu skuli skattskyldar til heimilissveitar, en bæta þá við þær atvinnugreinar, sem má leggja beint útsvar á í atvinnusveit, og hafði ég raunar samið brtt. um þetta efni, sem ég ætla þó ekki að leggja fram, a. m. k. ekki fyrr en ég heyri undirtektir hv. n., en brtt. er um það að taka efni a- og c-liðar 1. tölul. 9. gr. og flytja það efni í 8. gr. Það er um það, að beinlínis megi leggja á þann atvinnurekstur, sem þar er nefndur. Eins og nú er, má skipta útsvörum af þessum atvinnurekstri, en ef brtt. mín yrði samþ., þá yrði lagt beint á þennan atvinnurekstur þar, sem hann er rekinn. — Það er fleira, sem verður eiginlega dálítið sundurleitt í l., ef frv. yrði samþ. Það er eiginlega ekki hægt að sjá það rökfræðilega séð, hvers vegna útlendingur, sem atvinnu hefur hér á landi, eigi að greiða hér útsvar, en vinnuþegi eigi ekki að greiða útsvar í atvinnusveit. Hitt skal ég játa, að heimilissveit ber meira nú en þegar l. voru sett í fyrstu, og það er vegna þess, að heimilissveitin hefur nú meiri útgjöld af hverjum íbúa en áður.

Ég vil svo vænta svara frá hv. n. um það, hvort hún er ekki fáanleg til að athuga það sjónarmið, sem ég nú hef sett fram.