15.12.1949
Efri deild: 14. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

54. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er aðeins um framlengingu á tollum af innlendum framleiðsluvörum, sem hafa verið lagðir á undanfarið og voru í fyrra hækkaðir að miklum mun og giltu þá fyrir yfirstandandi ár. Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt það til í frv. þessu, að þessi hækkun yrði einnig látin gilda fyrir 1950. Það virðist ekki vera vanþörf á að halda þeim tekjum það ár eins og yfirstandandi ár, og þess vegna taldi n. rétt að mæla með því, þar sem hér er ekki um nauðsynjavörur að ræða, að þetta gjald héldist áfram, og var öll sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Einn nm. var fjarverandi, en ég hygg hann sé ekki mótfallinn þessu frv.