10.02.1950
Efri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um að heimila ríkisstj. að selja fjórar jarðir í opinberri eigu: Um þrjár þessara jarða er það að segja, að þær eru í ábúð, og er farið fram á að selja þær ábúendum þeirra. Þessar jarðir eru: Þjóðjörðin Bakki í Svarfaðardal, kirkjujörðin Stærri-Árskógur í Árskógshreppi og þjóðjörðin Syðri-Bakki í Arnarneshreppi, allir í Eyjafjarðarsýslu. Það má nú e. t. v. segja, að hægt hefði verið að ná þessum eignarrétti eftir öðrum leiðum, en þeirri að fá sérstaka lagaheimild, nefnilega þannig, að ábúendurnir öfluðu sér erfðaábúðarréttar og hefðu síðan fengið jarðirnar keyptar sem ættaróðul. En ég veit ekki nákvæmlega sögu þess máls, en um tvær þessara jarða veit ég, að gerð hefur verið nokkur tilraun í þessa átt, en eigi hefur það þó komizt í framkvæmd, og ég held líka, að aðgerðir í þá átt yrðu tafsamar. Ég sé ekki heldur, hvað er á móti því að heimila með sérstakri lagaheimild að selja þessar jarðir ábúendum þeirra. Ég mundi ekkert hafa á móti því, að hv. n., sú er málið fær til meðferðar, bæri fram þá brtt. við frv., að í það yrði sett það skilyrði, að jarðirnar yrðu gerðar að ættaróðulum. En ég held, að þá yrði að breyta 1. mgr. 1. gr., þar sem ákveðið er, að „ríkisstjórninni er heimilt að selja eftirtaldar jarðir fyrir verð, sem ákveðið er með mati dómkvaddra manna.“ Yrði ég þá fylgjandi því, að þær jarðir yrðu seldar með þeim skilyrðum, sem þar greindi.

Um Bakka og Syðri-Bakka er svo ástatt, að byggt hefur verið upp á báðum þessum jörðum, og eiga ábúendur mikið af verðmætum þeim, sem á jörðunum eru, og áreiðanlegt er, að ábúandinn á Bakka á meiri eignir á jörðinni, en ríkið á. Eru alltaf vandkvæði á því, þegar ábúandinn er í leiguábúð, en þannig ástatt, að hann á svo og svo mikið af eignum á ábýlisjörð sinni, þá á hann alltaf á hættu, hvort eignirnar verða keyptar fullu verði, t. d. við dauða, og undir högg að sækja, þótt hann hafi við lög að styðjast í því efni. — Um jörðina Stærra-Árskóg er öðru máli að gegna. Þar hefur ábúandinn eigi látið byggja íbúðarhús, en bæjarhús þar eru úr sér gengin. Þar þarf líka að byggja peningshús flest. Nú kom ábúandinn suður í haust og átti tal við fulltrúa í stjórnarráðinu um þetta mál og fór fram á, að eigandi jarðarinnar, ríkið, léti byggja upp á jörðinni skv. ábúðarl. En fulltrúinn benti honum á, að fé væri ekki fyrir hendi og hefði eigi verið veitt nægilegt fé til þess, en í mörg horn væri að líta og hið eina, sem kæmi til mála, væri byggingarstyrkur, en hins vegar gæti ábúandinn í öðru lagi sennilega fengið byggingarlán, en þau eru bara lítill hluti kostnaðarins, og hikar ábúandinn við að leggja í slíkan kostnað og eiga svo allt í óvissu. Hér er um aldraðan mann að ræða, sem að sjálfsögðu vill tryggja það, að sonur sinn geti tekið við af sér og notið þess, sem hann hafi lagt fram. — Ég vil bæta því við varðandi þessar jarðir, að mér virðast jarðeignir ríkisins, sem ekki eru í erfðaábúð, vera hreint vandræðamál. Það er ekki lagt fram nægilegt fé til að byggja upp á þeim og ríkið innir þannig ekki skyldur sínar af hendi sem landsdrottinn, samkv. ábúðarlögunum. Ég hef því fengið þá skoðun, að það sé í flestum tilfellum alveg eins gott að selja þessar jarðir eða jafnvel gefa þær, er mér nær að segja. Þetta gildir þá um þrjár jarðirnar, en öðru máli gegnir um eyðijörðina Fagranes í Öxnadal í Eyjafjarðarsýslu. Þetta hefur ætíð verið léleg jörð, og hefur lélegur búskapur verið rekinn þar. Ég þekki alla ábúendur, sem verið hafa þar síðari árin. Hefur hún ýmist verið í byggð eða eyði. Ég hef átt þarna heima í héraðinu og veit um þetta. S. l. ár var jörðin t. d. í eyði. Hafa vegavinnumenn haft þar bækistöð sína. Í sumar brenndu þeir kofana, og er jörðin því húsalaus. Þess er því engin von, að jörðin byggist, nema af opinberri hálfu verði 1agt fram fé til að byggja þar íbúðarhús og peningshús, og er það samt vafasamt. Getur því eigi verið neitt að missa fyrir ríkið, þar sem er þessi jörð. Hér hef ég lagt til í frv. að selja bóndanum á næsta bæ þessa jörð, Rút Þorsteinssyni í Engimýri, sem hyggst nota jörðina fyrir bithaga. Hann hefur mikla ræktun heima og hefur fjölgað gripum sínum og þarf nú á auknum bithaga að halda, svo að full not geti orðið af.

Það er eigi ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Ég vona, að því verði vísað til 2. umr., og legg til, að frv. verði vísað .til hv. landbn. að lokinni þessari umr.