07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Sem flm. þessa frv. leyfi ég mér að tjá hv. landbn. þakkir fyrir þá vinnu, sem hún hefur lagt í þetta mál, og einnig fyrir það, að hún hefur skilað málinu frá sér eftir ekki lengri tíma en eðlilegt má teljast. Aftur á móti er það svo, og mun ég koma betur að því síðar, að ég get ekki verið hv. landbn. jafnþakklátur fyrir niðurstöður hennar allar og ég er henni þakklátur fyrir þau atriði, sem ég nefndi. Ég skal þó taka það fram, að ég hef ekki á móti sumum hennar brtt., þannig hef ég ekkert á móti því, að sala jarðanna sé þeim skilyrðum háð, að hreppsn. mæli með sölunni. Aftur á móti sé ég ekki neina nauðsyn á því að bæta sýslun. þar við, vegna þess að ég skil ekki annað en að þetta verði svo, ef það kemur eitthvað í bága við almenna hagsmuni, að jörðin sé seld, að þá sé það sérstaklega viðkomandi hagsmunum hreppsbúa, og ég held, að hreppsn. sé þá langbezt bær um það að dæma. En sýslun., sem saman stendur af einum manni úr hverjum hreppi sýslunnar, er kannske að meiri hluta til mjög ókunnug staðháttum og yrði því mjög að hlíta leiðsögn sýslunefndarmannsins úr viðkomandi hreppi um þetta allt, og tel ég þá litlu meiri tryggingu, þó að sýslun. sé bætt við, heldur en að hafa hreppsn. eina. Hins vegar getur þetta ákvæði orðið til þess að tefja framkvæmd í málinu. Ég get fallizt á till. n. um það, að sala á jörðinni Bakka í Svarfaðardal sé því skilyrði háð, að hún verði gerð að ættaróðali, samkv. l. frá 1945, og sama mundi vera að segja um hinar jarðirnar, sem nefndar eru í 1. og 2. lið 1. gr. frv., að ég mundi vera því samþykkur eða a. m. k. ekki hafa á móti því, að sams konar skilyrði yrði sett um þær. En þó að ég geti nú fallizt á þetta hjá hv. n., þá get ég ekki verið ánægður með það, að hún leggur til að fella niður heimildina til að selja tvær af þeim jörðum, sem ég hef farið fram á, að heimild yrði gefin til sölu á, kirkjujörðina Stærra-Árskóg og þjóðjörðina Syðri-Bakka í Arnarneshreppi. Ég get ekki séð, að þau rök, sem í nál. greinir og fram komu í ræðu. hv. frsm. n. um þetta, séu það sannfærandi, að rétt sé að fella þessa liði frv. með öllu niður, jafnvel þó að ég geti játað, að eitt atriði þeirra, sem n. nefnir, sé á þann veg, að ástæða væri til að n. athugaði það betur og ástæða væri til að gera nokkra breyt. á frv. vegna þess. Það er viðvíkjandi jörðinni Stærra-Árskógi, þar sem nefnt er, að skóli hafi verið byggður á landi jarðarinnar, sem þegar hafi fengið nokkurt land til umráða, enda hefur skólastjórinn ræktað í kringum skólann nokkurt tún og hefur þar nokkurn búskap. Ég get fallizt á það, að jafnhliða því og salan færi fram eða áður, þyrfti að gera landskipti á landi jarðarinnar og landi skólans, sem skólinn og skólastjórinn fengju til afnota, og að það land, sem skólanum væri ætlað, væri undanskilið við söluna. Það get ég ákaflega vel fallizt á. En mér finnst það dálítið vafasamt, sem bæði er getið um í nál. og hv. frsm. minntist á, að ekki megi selja Stærra-Árskóg vegna Hauganesbúa. Eins og getið er um í nál., er þetta þorp, — ef þorp skyldi kalla, því að húsin eru ekki það mörg, — byggt á landi Selár, og öll þessi býli hafa, eftir því, sem ég bezt veit, fengið afmælt land úr Selárlandi til ræktunar. Ég verð nú að telja, að ekki séu miklar líkur til þess, að þarna á Hauganesi vaxi upp mikið þorp. Það getur ekki byggzt á öðru þar en auknum sjávarútvegi, sem ég tel ákaflega litlar líkur til að verði, auk þess sem í næsta nágrenni er nú að koma góð höfn, á Dalvík, og það hefur verið í ráði, að önnur höfn kæmi í Hrísey. Ég hygg því, að þeir, sem hugsuðu sér að stunda sjávarútveg af þessum slóðum, nýir menn, mundu að sjálfsögðu setjast að í Dalvík eða á Hrísey til þessa atvinnurekstrar, en ekki fara að setja sig niður á Hauganesi. Það virðist mér a. m. k. ákaflega ótrúlegt. Hv. frsm. talaði um það sjónarmið n. að selja ekki jarðir þar, sem þorp eða kauptún gætu þurft á þeim að halda. En mér virðist, að þess þurfi þá líka að gæta að gera ekki alveg ómögulega ábúð á góðum jörðum þeirra hluta vegna, nema þörfin sé brýn, og mér finnst, að þá mætti meta það, taka frá og undanskilja sölunni eitthvert land handa Hauganesbúum úr Stærra-Árskógslandi, sem ekki mætti vera stærra en það, að sjálfstæður búskapur gæti haldið áfram í Stærra-Árskógi, og finnst mér, að vel mætti selja það, sem eftir væri af jörðinni, með því móti, til að gera það að ættaróðali. —Alveg það sama er að segja um Syðri-Bakka. Það er alveg rétt, að Syðri-Bakki liggur í nánd við Hjalteyri. Þó hygg ég, að land jarðarinnar liggi hvergi alveg að Hjalteyrarlóðunum, heldur er þar jörð á milli, sem er Ytri-Bakki. Og svo er á það að líta, sem hv. frsm. nefndi, að eigendur Hjalteyrar eiga nú jarðir, sem alveg liggja að Hjalteyri, eða önnur þeirra, og hin er þar næst við, sem eru Bragholt og Skriðuland. Bragholt er mjög vel fallið til ræktunar, og það er það stórt, að ég skil ekki í öðru, en að það mundi nægja Hjalteyrarbúum nokkuð til ræktunarlanda. Og þó að það sé svo, eins og hv. frsm. sagði, að Hjalteyri er verksmiðjuþorp, þá stendur það aðeins í sambandi við eina verksmiðju. Og ég hef nú ekki trú á, að íbúum þess þorps fjölgi stórlega. Ég hygg, að þarna verði búsettir menn, sem atvinnu hafa mest hjá þessari verksmiðju, en sé ekki eiginlega, hvers vegna byggð ætti að vaxa þar stórum annars vegna, þar sem Hjalteyri er það innarlega við Eyjafjörð, að þar hygg ég, að varla muni verða mikil útgerð, því að staðirnir utar við fjörðinn eru að sjálfsögðu betur til þess fallnir. Mér finnst því, að það mætti vel selja jörðina Syðri-Bakka, þannig að hún væri gerð að ættaróðali, þrátt fyrir það að hún sé nálægt Hjalteyri. Að vísu veit ég ekki, hvað á að teygja sig langt um það, að kaupstaðir og þorp geti lagt undir sig sveitirnar og hlutað þær niður í smáskika sem ræktunarlönd handa kaupstöðunum og kauptúnunum. Kannske það verði stefnan að taka allar nærliggjandi sveitir þessum stöðum til þeirra nota. Og þá náttúrlega skiptir öðru máli.

Hv. landbn. fellst á, að fjórða jörðin, sem við höfum lagt til, að seld verði, Fagranes í Öxnadal, verði seld. En ég get ekki vel fallizt á brtt. n. samt um þann lið. Í fyrsta lagi leggur hv. n. til, að það sé ekki nefnt, hverjum á að selja jörðina, heldur sé það tekið út úr frv. og gefin almenn heimild til þess að selja jörðina. Þetta er byggt á því, eftir orðum hv. frsm. að dæma, að það muni þurfa á landi jarðarinnar að halda fyrir afréttarland, því að í framtíðinni muni botn Öxnadals, eins og hann orðaði það, eða innri byggð Öxnadals verða tekin undir afréttarland. Það lítur nú svo út, að hreppsnefnd Öxnadalshrepps álíti, að hreppnum sé ekki nauðsyn á þessu landi fyrir afréttarland, því að ég hef í höndum yfirlýsingu frá hreppsnefnd Öxnadalshrepps, sem ég var að hugsa um að láta birta sem fskj. með frv., en mér fannst við nánari athugun ekki taka því. En þessi yfirlýsing er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Öxnadalshrepps afsalar sér kauparétti á jörðinni Fagranesi til handa Rúti Þorsteinssyni bónda á Engimýri í Öxnadalshreppi. Afsalið er aðeins bundið við þennan mann.

Í hreppsnefnd Öxnadalshrepps 22. nóvember 1949.

Þór Þorsteinsson. Gestur Sæmundsson.“ Annar þeirra, sem undir þetta rita, er oddviti hreppsn. — Og jafnvel þó að innri hluti Öxnadals yrði tekinn fyrir afréttarland, sem ég hef ekki trú á, að Fagranesland yrði tekið til þess, nema þá kannske partur af því, en ég hef ekki trú á, að allt land þeirrar jarðar yrði tekið til þessa. Mörkin á afréttarlandinu yrðu sjálfsagt að vestan við Bessahlaðagil, og þá mundu mörkin að austan verða nokkru innar en bærinn eða túnið í Fagranesi. — Í öðru lagi þykir mér dálítið undarleg till. n. í þessu efni og grg. fyrir henni um það, að taka skuli við mat á jörðinni tillit til kröfu þeirrar, er jarðeigandi á á hendur Brunabótafélagi Íslands, ef aftur verður byggt upp á jörðinni, en sú krafa er 8.323 kr. og því skilyrði háð, að byggt verði aftur íbúðarhús í Fagranesi. Það liggur fyrir, að óskað er eftir jörðinni til bithaga og alls ekki ætlunin að byggja þar upp, og þá skilst mér ekki, að þetta fé komi á nokkurn hátt til útborgunar hjá Brunabótafélagi Íslands. Og sé ég þá ekki, hvernig kaupandinn á að fara að greiða þetta eða hluta þess, en við það hlýtur þó að vera átt með fyrirmælum í brtt. n., að hann annaðhvort greiði allt féð eða hluta þess, ef á að taka tillit til þessa við söluna. Í öðru lagi skil ég ekki, hvaða eign ríkið er hér að láta, sem það þurfi að fá greiðslu fyrir. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. landbn. leggi til, að ríkið fari að byggja upp á Fagranesi og verja til þess 100 þús. eða kannske 150 þús. kr. úr ríkissjóði, enda hygg ég, að það yrði mjög lélegt gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð að gera það. En ef ríkið á jörðina og byggir ekki upp á henni, þá hefur það ekkert gagn af þessari kröfu. Aftur á móti, þó að jörðin væri seld, án þess að þessi krafa væri keypt, og til þess kæmi svo, að byggt væri á jörðinni, þá sé ég ekki annað en að sá, sem byggði upp á þessu koti, væri vel að þessum peningum kominn til byggingarinnar. En sem nákunnugur maður hef ég ekki neina trú á, að nokkurn tíma framar muni verða byggt upp á Fagranesi, því að það er ekki rétt, sem fram var haldið hér við 1. umr., að gott ræktunarland væri kringum Fagranes. Það er alls ekki. Kringum túnið á Fagranesi er þannig land, að ég held, að mjög erfitt sé að rækta það. Ég gæti miklu betur trúað því, að í landi Engimýrar gæti komið upp myndarbú, þegar búið væri að rækta þar það land, sem vel er ræktanlegt og frjótt land. En þá mundi hinum tveimur býlum, Engimýri og nýbýli, sem er í hennar landi, alls ekki veita af Fagranesi til bithaga. — Ég vildi, samkv. því, sem ég hef nú sagt, þar sem ég að sumu leyti get fallizt á till. hv. n., en að öðru leyti aftur er þeim mótfallinn eða vildi frekar óska eftir, að þær næðu ekki fram að ganga, langhelzt leggja til, að hv. n. vildi fresta þessum brtt. sínum, að freistað yrði þess, hvort ekki gæti náðst samkomulag milli hennar og mín um brtt. til 3. umr. Ég fer því fram á það við hv. n., að hún taki brtt. aftur að sinni og ég fái að koma á hennar fund til að ræða málið við hana. Ef hún ekki fellst á það, sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með brtt. n., þeirri nr. 2. Og þar sem þessi brtt. í heild er um umorðun á 1. gr. frv., sé ég mér þá ekki fært að greiða atkv. með henni við þessa umr.

Í upphafi ræðu sinnar ræddi hv. frsm. nokkuð almennt um sjálfsábúð og erfðaábúð o. s. frv. Ég ætla ekki að blanda mér í það. Ég hef oft í þessari hv. d. sagt mína skoðun um það, að ég álít sjálfsábúðina beztu ábúðina fyrir jarðirnar, en ég tel það ekki óheppilegt form fyrir landbúnaðinn, að jarðirnar séu ættaróðul. Og a. m. k. hefur Norðmönnum ekki reynzt það óheppilegt. En ég skal ekki fara út í þá sálma. En hv. frsm. skaut því í lok ræðu sinnar til d., án þess að till. liggi fyrir um það, hvort ekki gæti komið til mála að selja svo kallaðar kristfjárjarðir. Ég verð nú að segja það, bara almennt séð, um slíkt, að mér finnst, að þótt mörg hundruð ára gömul ákvæði séu til um eignarhald á jörð eða eitthvað slíkt, þá hljóti að mega breyta þeim ákvæðum. Það ber að vísu að virða mikið vilja gefendanna, þegar um slíkt er að ræða. En þess ber að gæta, að þá gátu gefendur ekki gert sér grein fyrir þeim þjóðfélagsástæðum, sem nú eru, er þeir gáfu jarðirnar, ekki frekar en við getum gert okkur nokkra rétta hugmynd um, hvaða þjóðfélagsástæður verða að 500 árum liðnum eða eitthvað slíkt. Ef hv. frsm. leggur eitthvað upp úr áliti okkar þdm. um þetta, vil ég láta það álit í ljós að, að sjálfsögðu megi þessu róta, a. m. k. ef höfuðtilgangur gefendanna heldur sér, sá höfuðtilgangur, sem fyrir gefendunum vakti með gjöfinni. En hvað Geitagerði snertir, sem hann talaði um, þá sé ég ekki, að ákvæði um það hafi neitt inn í þetta frv. að gera. Ég sé ekki annað en að viðkomandi hreppur ætti að geta selt jörðina, ef hann leggur andvirðið í sjóð og notar þann sjóð samkv. vilja gefandans, því að ríkinu hefur ekki á nokkurn minnsta hátt verið gefin þessi jörð, heldur hefur hreppnum á sínum tíma verið gefin jörðin eða arðurinn af henni. Hv. frsm. sagði, að hann gerði ekki svo verulegan mun á þessum kirkjujörðum eða kristfjárjörðunum. Ég sé það ekki heldur beinlínis, að á þeim sé mikill munur, því að það er alveg satt, sem hann sagði, að kirkjujarðirnar eru flestar þannig til komnar, að þær voru gefnar og menn gáfu þær fyrir sálu sinni og í ýmsum tilgangi. Og að þær komust undir yfirráð ríkisins, var fyrir útlent ofbeldi á sínum tíma, þegar kirkjan var rænd t. d. klausturjörðunum, sem ekki hvað sízt voru gefnar fyrir sálu sinni, þegar og ríkið tók yfirráð yfir kirkjunni. Ég sé því ekki mun beinlínis á kirkjujörðunum og kristfjárjörðunum. En ég sé mikinn mun á því, hver nú hefur umráð yfir þessum jörðum. Ríkið hefur, með réttu eða röngu, tekið umráðin yfir kirkjunni og kirkjueignunum alveg undir sig. Þess vegna er það eðlilegt, að það þurfi lög um það að selja kirkjujarðir. En hvort það þurfi lög um það að selja kristfjárjörð, finnst mér að fari alveg eftir því, hver sá aðili er, sem hennar á að njóta. Og í þessu tilfelli er það hreppur í Fljótsdalshéraði, sem á að njóta eftirgjaldsins af Geitagerði, og þess vegna finnst mér hreppurinn þar hafa nákvæmlega sama rétt til þess að selja þessa jörð eins og ríkið hefur til þess að selja kirkjujarðir. Þannig lít ég á það.