07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Mér skilst, að n. gefi enga von um, að semjist á milli okkar um þær breyt., sem eru aðalatriðið hér, og verða því að ganga atkv. um till. n., en ég get ekki fallizt á þær, þó að ég sé þeim í ýmsu sammála. Ég get ekki fallizt á það, sem hv. frsm. landbn. sagði, að þeim kauptúnum, sem liggja nálægt tveim af þessum jörðum, geti stafað hætta af sölu jarðanna, því að til eru l., sem heimila í slíkum tilfellum að kaupa land undir lóðir og annað slíkt með matsverði, svo að ekki getur staðizt, að jarðeigandinn geti selt land með uppsprengdu verði og á þann hátt fengið upp í jarðarverðið. Það er þá eitthvað undarlegt við framkvæmd þessara laga, ef slíkt er hægt. Ég man ekki, hvað þessi l. heita, en ég man, að efni þeirra er það, að hægt er að fá þetta land með matsverði, en ekki því verði, sem eigandinn kann að setja á það. Annaðhvort hefur frsm. ekki minnzt á skilyrðin fyrir sölu Fagraness eða ég ekki heyrt það, er ég skrapp frá um stund.

Ég skal ekki lengja umr. nú, en hv. þm. skera úr þessu við atkvgr. En verði till. samþ., þá mun ég við 3. umr. bera fram till., sem mundi koma frv. í betra horf en það yrði, ef till. n. kynni að verða samþ.