10.03.1950
Efri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Því miður hefur ekki náðst til allra, sem sæti eiga í landbn., í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og vil ég biðja þá, sem ekki hefur náðst í, fyrirgefningar. Hins vegar hygg ég, að n. sé öll sammála um þá niðurstöðu, sem hér liggur fyrir á þskj. 411, og til þess að árétta þá gerð, skal ég geta þess, að með henni er nokkuð komið til móts við flm., sem hins vegar mun vera óánægður yfir matinu í sambandi við Fagranes. Fyrri brtt. n. er, að orðin „og sé við söluna tekið tillit til kröfu þeirrar, er jarðeigandi á, á hendur Brunabótafélagi Íslands, ef aftur verður byggt upp á jörðinni“ í 2. tölulið falli niður. Þess munu vera dæmi, að Brunabótafélagið hefur borgað kröfur vegna brunatjóns á sveitabæjum, enda þótt ekki hafi verið byggt upp á sama stað, eða að minnsta kosti nokkurn hluta brunamatsverðs. Það vakir auðvitað fyrir n., að gengið verði úr skugga um þetta atriði, áður en sala fer fram. Það má auðvitað segja, að þetta sé að því leyti verra, ef einhver maður kæmi og vildi kaupa jörðina með þeim skilyrðum að byggja á sama stað og mundi þá fyrirgera rétti bóndans á Engimýri til kaupanna. Mér skilst þó, að flm. geti vel sætt sig við þessa lausn málsins. Hins vegar mun flm. vera óánægður með, að salan skuli ekki vera ákveðin til bóndans á Engimýri, enda flytur hann brtt. um það á þskj. 410. En þetta atriði var ekki ákveðið í n., af ásettu ráði, í fyrsta lagi vegna þess, að vilji einhver byggja á sjálfri jörðinni, þá töldum við, að hann ætti að eiga forkaupsrétt. Í öðru lagi töldum við, að til greina gæti komið, að hreppurinn, það er að segja Öxnadalshreppur, óskaði eftir þessu landi fyrir afrétt. Það munu að vísu liggja fyrir yfirlýsingar frá hreppsnefndinni um, að svo sé ekki, en slík afstaða gæti breytzt. Af þessum ástæðum töldum við eðlilegt að binda söluna ekki nánar á þessu stigi málsins.

Þá vil ég aðeins minnast á brtt. mína á þskj. 412, sem barst í tal við síðustu umr. Ég þarf að vísu ekki að segja mikið um þá till. út af fyrir sig, en hins vegar held ég, að nauðsynlegt sé, að Alþingi taki til nánari athugunar hinar svo nefndu kristfjárjarðir, því að þær eru illa settar, eins og löggjöfinni nú er háttað. Það verður nú víst að segja, að þær séu í opinberri eigu, hins vegar leikur allmikill vafi á, hver eigi að hafa umráð yfir þeim. Sumir telja þær sjálfseignarstofnanir, og má það til sanns vegar færa, og hafa sveitarstjórnir víða haft ráðstöfunarréttinn á þessum jörðum, hver í sinni sveit, að svo miklu leyti sem hann er ekki bundinn. Hin síðari ár hefur svo ríkisstj. verið að seilast til umráða yfir jörðunum, og má í því sambandi nefna Geitagerði. Áður heyrði þessi jörð undir prestinn á Valþjófsstað, og átti hann að sjá um byggingu jarðarinnar og sömuleiðis, að þyngsti ómagi héraðsins hefði þar framfæri. Um þetta var fjallað í gjafabréfi, sem fylgdi Geitagerði, en mun nú vera glatað. Eins og 1. þm. Eyf. sagði, þá munu margar þessar gjafajarðir nú nytjaðar öðruvísi, en ætlazt var til í gjafabréfunum og víða þverbrotin þau fyrirmæli, sem um afnotin voru gerð. Þetta er í sumum tilfellum eðlilegt vegna breyttra aðstæðna, og má í því sambandi nefna kristfjárjörð á Mýrum, sem ætlað var að bjarga fátækasta bóndanum frá sveit. Afgjaldið af þessari jörð mun hafa verið 4 gemlingar, og sést af því, hver fjarstæða er, að slíkt geti bjargað frá sveit, eins og nú er, enda er þetta afgjald nú látið renna í viðkomandi hreppssjóð. Það eru mörg hliðstæð dæmi til um meðferðina á afgjöldum þessara jarða og því vandséð, hvernig fer um þær í framtíðinni, ef ekkert verður að gert. Mér þykir rétt að minnast á eina jörð sérstaklega í þessu sambandi, en það er kristfjárjörðin Reynir hjá Akranesi. Hún er gefin af Brynjólfi Sveinssyni biskupi og var tekið fram í gjafabréfinu, að afgjaldið ætti að ganga til fátækustu prestsekkjunnar í Borgarfjarðarsýslu, en sé engin fátæk prestsekkja þar, þá átti að færa afgjaldið til Mýrasýslu og með sömu skilyrðum, en væri engin þar heldur, átti að halda í Húnaþing og ég man ekki, hvort lengra átti að fara norður. Þessi jörð hefur verið undir umsjón prófastsins í Mýrasýslu, en ríkissjóður hefur ekkert skipt sér af jörðinni. Fyrir alllöngu síðan fluttust þangað ung hjón, en nú býr ekkjan þar með börnum bróður síns, að ég held frekar, en börnum mágs síns. Það er búið að gerbreyta þessari jörð, meðal annars byggja þar milli 20 og 30 kúa fjós, og má fullyrða, að lagt hafi verið þar á annað hundrað þúsund kr. í byggingar. Eftir ábúðarl. ætti jarðareigandinn að kaupa þessar byggingar, ef ekkjan hætti að búa, en nú er jarðareigandinn jörðin sjálf í þessu tilfelli og ekkert fjármagn til þess að greiða með. Hvað verður þá um þessa jörð? Það getur auðvitað hugsazt, að einhver fengist til að taka hana með því skilyrði að kaupa öll mannvirki, og fengi sá auðvitað ábúðarrétt, en það er alls ekki víst, að neinn væri tilkippilegur til þess að kaupa svo miklar eignir á jörð, sem hann fengi ekki nema ábúðarrétt á. Það gætu því orðið hrein vandræði út úr slíku, og það þarf að fyrirbyggja. Ég tel sjálfsagt að heimila sölu á þessum jörðum og sé alls ekki aðra leið heppilegri, en auðvitað ætti að gera þær að ættaróðulum um leið. Nú hef ég lagt til hér á þskj. 412, að heimiluð verði sala á einni slíkri jörð. Ég hef helzt hallazt að því, að hreppsnefndin hafi heimildina til að selja, enda þótt ég væri í vafa um það, en hef samt orðað till. þannig. Til þess svo að fara sem minnst frá ákvæðum gjafabréfs, legg ég til, að andvirði jarðarinnar verði lagt í sérstakan sjóð, er ávaxta skuli í ríkistryggðum skuldabréfum, eftir því sem við verður komið. Vaxtanna á hreppurinn að njóta, og nota þá til sinna þarfa, enda sjái hann um ómagana að svo miklu leyti sem tryggingarnar gera það ekki. Þetta er nánast prófmál fyrir mér, til að heyra álit manna um þessar jarðir.