17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil viðvíkjandi þessu frv. segja það, eins og ég hef oft minnzt á áður, þegar rætt hefur verið um þetta, að ég álít þessa breytingu ákaflega varasama. Það er allt annað, sem þyrfti að gera víðvíkjandi jarðeignum ríkisins, en að losa þjóðina við þær jarðir, sem hún á, ekki vegna þjóðarinnar sérstaklega, heldur vegna landsins alveg sérstaklega, og vildi ég eindregið biðja þá n., sem fær þetta til meðferðar, að athuga og endurskoða þá stefnu, sem er svo mjög ríkjandi um að selja þjóðjarðir. Allir vonast eftir því, að landið eigi eftir að verða miklu þéttbýlla, en nú er og jarðirnar betur ræktaðar, og er augljóst, að ef jarðirnar eiga að verða frjálsar til sölu, hlýtur jarðaverðið á næstu áratugum að fara upp úr öllu valdi og verða baggi á öllum þeim, sem jarðirnar rækta. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um þetta núna, en vildi mælast til þess, að sú n., sem fær þetta til athugunar, ræði nokkuð um það, hvort rétt sé að halda áfram þessari stefnu, sem tekin hefur verið upp.