15.12.1949
Efri deild: 15. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

54. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 1. þm. N–M. við 2. umr. þessa máls um, hvort n. hefði ekki leitað til hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún vildi þarna hafa enn þá hærra gjald til ríkissjóðs, en hér væri til tekið, þá sagði ég, að ég mundi reyna að ná viðtali af hæstv. fjmrh. á milli umr. En mér hefur nú ekki tekizt það. Ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. leggi kapp á að hækka þessi gjöld frá því, sem hún hefur lagt fyrir þingið nú. Og yfirleitt mun ekki vera venja, að nefndir leiti til ríkisstj. um slíka hluti. En þar sem hæstv. fjmrh. fannst ekki og er víst í öðrum störfum, þá verð ég að lýsa yfir, að ég tel ekki neina ástæðu til að fresta þessari umr. til frekari ráðagerða með ríkisstj., þar sem líka frv. er ekki búið að ganga í gegnum hv. Nd., en þar á hæstv. fjmrh. sæti og þar getur hann lagað þetta frv., ef honum sýnist ástæða til þess. En ég tel ekki ástæðu til annars en að samþ. frv. eins og það liggur fyrir nú og eiga þá undir kasti með það, hvort hæstv. ríkisstj. telur ástæðu til þess að smíða ofan á þessa hækkun á gjöldum eða ekki.