27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

49. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl, (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 557, hef ég ekki getað orðið meiri hl. allshn. samferða um afgreiðslu þessa máls.

Eins og drepið er á í nál. og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl., þá er það engum efa bundið, að hér er um að ræða eitt mesta vanda- og erfiðleikamál, sem Alþingi hefur fjallað um — húsnæðis- og húsaleigumálið. Í raun og veru er þar aðeins um að ræða tvær höfuðleiðir til úrlausnar í bráð og lengd. Hin fyrri virðist fær, hin síðari ekki. Fyrri leiðin er bygging ódýrra og hentugra íbúða í svo stórum stíl sem geta fólksins og aðdráttarmöguleikar þjóðarinnar leyfa.

Hin leiðin, sem er hugsanleg en ekki fær, er að setja strangar reglur, þar sem almannavaldið tekur í sínar hendur yfirráð alls húsnæðis, hefur skömmtun á því og ákveður, hvað greiða skuli í leigu. Þessi leið er algerlega ófær að mínu áliti, vegna okkar þjóðfélagshátta og sterkrar einstaklingshyggju, sem þjóðinni er inngróin, jafnframt því að ríkisvaldið er veikt. Alþfl. hefur fyrir sitt leyti viljað benda á fyrri leiðina og hefur hvað eftir annað borið fram till. í þá átt; enda yrðu þær aðgerðir eina varanlega lausnin.

Þessar almennu athugasemdir vildi ég gera til glöggvunar á málinu, og skal nú víkja nokkuð að sjálfu frv. og dagskrártill.

Ég get þess í mínu nál., að enda þótt ég stæði að húsaleigulögunum á sínum tíma og teldi þá brýna nauðsyn á setningu slíkra laga, og þótt ég sé sannfærður um, að þau hafi á ýmsan hátt orðið mörgum til gagns, þá játa ég þó, að þau hafa æ minna náð tilgangi sínum, eftir því sem tímar hafa liðið fram, og þyrfti nú að setja á nýjan leik greinargóða löggjöf, þar sem ákveðin væru réttindi og skyldur leigutaka og leigusala. Í samræmi við það stóð ég að frv. í fyrra um petta efni, þar sem tekið var tillit til reynslu, sem fengizt hefur á þessum sviðum í nágrannalöndum okkar, en þar er talin hin brýnasta nauðsyn að setja um þetta löggjöf, svo sem t. d. um lausafjárkaup. Samtímis því að sett væri slík heildarlöggjöf til verndar fyrir báða aðila, þarf svo að hefja íbúðabyggingar, og eftir því sem þeim miðaði áfram væri svo bezt að slaka á löggjöfinni smám saman og loks að nema hana að fullu úr gildi. Nú hefur ekki verið farin þessi leið og engar tilraunir gerðar að kveða skýrar á um skyldur og réttindi leigutaka og leigusala. Ég get því engan veginn léð þessu frv. fylgi. Með því er aðeins verið, að setja nýja bót á gamalt fat og ekki settar neinar heildarreglur til öryggis. Er það höfuðgalli frv., auk þess sem er að athuga við 5. gr:

Í samræmi við þetta legg ég til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, og sé ríkisstj. falið að undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni og leggja fyrir næsta Alþingi.

Um ákvæðin í 5. gr. er það að segja, að þau eru mjög varhugaverð, og veit ég ekki, til hvers þau eiga að leiða eða hvort þar er um annað en pappírslöggjöf að ræða. Fyrst og fremst er þar ákveðin viðmiðun eftir flatarmálsstærð íbúðanna. Til þess að þar væri um nokkurn öruggan grundvöll að ræða, þyrfti að, fara fram uppmæling á íbúðunum og koma til þess á fót nýrri og stórri stofnun, og yrði þó allt í óvissu um störf hennar. Þótt eitthvað kynni að finnast af gögnum hjá verkfræðingum unz stærð íbúðanna, þá hefur tíðkazt svo mikið krull með breytingar á húsnæði frá því, sem upphaflega var ráð fyrir gert í teikningum, að þau gögn skapa ekki öruggan grundvöll. Íbúðirnar þyrfti að mæla upp.

Í annan stað finnst mér skorta á, að skýrt sé tekið fram, hvað átt er við með orðinu „íbúðarhúsnæði“. Er þar með talið baðherbergi, W. C., gangar o. s. frv.? Eða við hvað er átt? Ég vildi gjarnan heyra, hvað fyrir flm. vakir um þetta. slíkt atriði má ekki leika á tveim tungum. Í frv. um stóríbúðaskatt, sem hér hafa legið fyrir, var reynt að skilgreina þetta nokkuð; en hér er engin tilraun gerð að skýra það, hvað átt sé við, þegar talað er um „íbúðarhúsnæði“.

Þegar þetta fer hvort tveggja saman, finnst mér þessi gr. ekki ná neinni átt.

Þá kemur það til í þriðja lagi, að þar er sagt, að hámarkið skuli lækka, ef lofthæð íbúðar er minni en 2,5 m. Nú er það svo, að í ýmsum húsum, sem nú eru orðin gömul, er lofthæð afar mikil, en í nýjum húsum mörgum aftur tiltölulega lítil. Þessi viðmiðun finnst mér þannig vera fjarstæða. Það má finna lofthæð, sem nemur 2,5 m, í gömlum timburhjöllum, og hins vegar íbúðir af fullkomnustu gerð, sem ekki ná þeirri lofthæð, en eru þó miklum mun betri íbúðir. Ákvæðið er því næstum að segja fáránlegt frá mínu sjónarmiði. Ætti að breyta hér til, þá þyrfti að gera það, á allt annan veg, en hér er gert.

Af þessum ástæðum öllum get ég ekki fylgt því frv., sem hér liggur fyrir, en tel, að ríkisstjórnin ætti að vinda bráðan bug að heildarlöggjöf, þar sem ágallar húsaleigulaganna verði sniðnir af og málum skipað með nýjum og betri hætti. Við þetta er mín dagskrártill. miðuð, um að vísa þessu máli frá.