13.05.1950
Efri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

49. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. viðurkenndi það, að mörg atriði í þessu frv. væru til bóta, en taldi frv. fyrst og fremst borið fram vegna 7. gr., og hún gerði það að verkum, að húsaleigulögin ættu ekki að vera til frambúðar. Þetta er ekki rétt, því að þau geta orðið til frambúðar í þeim bæjum, sem það vilja. Hv. þm. sagði mig vera mótfallinn brtt. minni hl. vegna þess, að tæpt væri með afgreiðslu málsins, en ég er aðallega á móti till. efnislega, þar sem ég tel þær óþarfar, því að bæjarfélögin sjálf geta komið á þessari athugun hjá sér, ef þeim sýnist ástæða til. Það er talað um, að þetta skipti mestu fyrir Reykjavík, en hún ætti sjálf að kunna fótum sínum forráð, og er ekki nema eðlilegt, að hún meti sjálf skókreppu sína.

Hv. 7. landsk. hampaði hér tveimur þskj. frá sama flokki. Öðru þeirra hefur lítt verið hampað hér, og er máske gott að vita, að það á sér hér unnendur, en það rekst ekki á nokkurn hátt á það frv., sem hér er til umr. En hér þarf ekki eingöngu að tala um hægri og vinstri stefnu, heldur miklu fremur ríkisstefnu og bæjarstefnu. Ég vil ekki, að ríkisvaldið blandi sér í fleira, en nauðsyn ber til, og því þykir mér rétt, að bæjarfélögin ráði sjálf, hvort þau hafi húsaleigulögin áfram í gildi. Það má enn fremur segja, að hér sé um að ræða valdstjórnarstefnu og frelsisstefnu. Við erum komnir nokkuð langt í því að marka okkur bás með ríkisafskiptum. Lagaflækjurnar eru orðnar svo miklar, að menn vita ekki sitt rjúkandi ráð. Menn eru orðnir eins og molbúarnir með fæturna flækta saman og það verri þó, að þeir þekkja ekki sína fætur, þótt barið sé á þá. En þetta frv. er til að greiða úr flækjunni, svo að menn geti þreifað á því, hver þeirra fótur er. Sannleikurinn er sá, að valdstjórnarstefnan er búin að eyðileggja virðingu manna fyrir lögunum. Af mjóum þvengjum læra hundarnir að stela, og af oflöggjöf læra menn að brjóta lögin og hætta að bera virðingu fyrir þeim. Ég álit rétt að láta menn meta sjálfa, hvort menn vilja hafa lög eða ekki. Og mér finnst rétt, að Reykjavík sé út af fyrir sig og sé sjálf látin kosta sínar húsaleigunefndir.

Það hefur mikið verið talað um húsnæðisvandræðin í Rvík, og mér hefur oft ógnað sá mikli áróður, sem hafður hefur verið í frammi fyrir nauðsyn þess að byggja þar stöðugt meira og meira, þegar jafnframt hefur svo verið talað um, að hún væri orðin allt of stór, svo að hún ætlaði að sliga landsbyggðina. En með því að ofbyggja þannig í Rvík er boðið upp á síaukna fólksfjölgun þar utan af landi, og byggðin dregst eftir því saman og vandinn vex.

Ég skal ekki orðlengja þetta, en taka það enn fram, að ég álít, að frv. þetta geri hvort tveggja — efli heimastjórn héraðanna og leysi lögviðjar, og aðalatriði nál. meiri hl. er þetta, að við lítum svo á, að rétt sé að frv. verði gert að lögum óbreytt.