13.05.1950
Efri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

49. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. sagði hér nokkur orð, og meðal annarra þau, í sambandi við afnám húsaleigulaganna, að sér þætti það skrýtið, ef ekkert húsnæði yrði á boðstólum við sæmilegu verði, þegar búið er að kasta þúsundum manna á götuna, því að ef það væri rétt, að verðið færi eftir eftirspurninni og framboðinu, þá gætu ekki verið miklir örðugleikar á því.Ég verð að segja það, að þetta er hrein hundalógik, sem ekki er einu sinni samboðin hv. þm. Barð., ekki einu sinni samboðin honum. Það er ekki eingöngu vegna þess að leigan er svo lág núna, að þeim verður kastað út á götuna úr því húsnæði, sem þeir búa í og ekki er hægt að segja upp. Húseigendurnir geta þá fengið ennþá meira fyrir leiguna af því að framboðið er ekki í neinu samræmi við eftirspurnina eftir húsnæði. Nú er ekki svo að skilja, að þetta húsnæði, sem þannig losnar, verði ekki leigt aftur, en látið standa autt. Þetta verður leigt aftur, en þá verður eftirspurnin orðin ennþá meiri eftir húsnæði, því að það verða fyrst og fremst allir, sem nú eru húsnæðislausir, og auk þess allir, sem sagt verður upp. Ef leiga var áður 100 krónur á mánuði, fer hún í 500–600 kr. Þetta ætti hv. þm. að geta skilið. En hverjir eru það þá, sem fá þetta húsnæði? Það eru þeir, sem hafa peningana til þess að leigja út fyrir undir slíkum kringumstæðum. Þeir, sem þá segja upp húsnæði, fá 5–6 sinnum meira fyrir það. Með öðrum orðum: þar sem hlutfallið á milli framboðs og eftirspurnar er þannig, að framboðið er miklu minna, þá verður afleiðingin sú, að svartur markaður verður á öllu húsnæði. Þeir, sem ekki hafa efni á slíku, verða hraktir frá húsi og heimili. Það liggja fyrir um það staðreyndir, svo að það þarf ekki að bíða eftir neinni reynslu til þess að sjá það, það getur hver maður sagt sér sjálfur. En ég geri ráð fyrir því, að það sé þýðingarlaust að benda hv. þm. Barð. á staðreyndir. Þær hrökkva af honum eins og vatn af gæs. En reynslan mun skera úr þessu, og þegar sú reynsla er komin, þá munu þingmenn Framsfl. og Alþfl. sannarlega verða dregnir til ábyrgðar.

Þá sagði hv. þm., að sá munur mundi á verða, eftir að húsaleigulögin væru úr gildi numin, að þá mundi húsaleigan byggjast á vinsamlegum samningum milli húseiganda og leigjanda. Já, ég get svona rétt trúað því, að það skapi vinsemd hjá manni, sem sagt hefur verið upp húsnæði, sem hann borgar 100 krónur fyrir, þegar hann þarf að borga fyrir það 500–600 krónur til þess að fá að halda því áfram. Það er óttalega trúlegt! Hins vegar get ég trúað því, að húseigandi verði heldur vinsamlegri, þegar hann fær 5–6 sinnum meira fyrir leiguna.

Hv. þm. talaði um frelsi í þessu sambandi. Við skulum minnast ofurlítið á það frelsi, sem hv. þm. er fylgjandi í húsnæðismálunum, það er frelsi húseiganda til þess að segja upp húsnæði, til þess að geta fengið meina verð fyrir, og þetta frelsi er honum svo annt um, að honum er alveg sama, þótt hundruðum og þúsundum manna sé kastað á götuna fyrir það; það er þá frelsi fyrir þá menn á götunni. En hvað þá um frelsi þeirra manna, sem vilja byggja? Þeir eru ekki fjötraðir af húsaleigulögunum. Þeir, sem vilja byggja og hafa einhverja möguleika til þess, þeir eru fjötraðir vegna þess, hve dýrt það er að byggja, þeir eru fjötraðir vegna innflutningshafta og hárra vaxta. En hvað segir hv. þm. um frelsi þeirra manna, sem hafa möguleika til þess að koma sér upp húsi, en er bannað það? Hverjir eru það, sem eru höfundar að slíku frelsi? Erum það við? Eða eru það kannske flokksbræður hans? Hvað segir hv. þm. Barð. um það, ef ég kem fram með till. um það, að þeim mönnum, sem möguleika hafa á því að byggja, skuli það frjálst, án tillits til þess, hvort leyfi fjárhagsráðs liggi fyrir? Ef hann vill ekki hlíta því, þá ætti hann að tala sem allra minnst um frelsi.

Hv. frsm. meiri hl. sagði það í sinni ræðu, að þetta frv., sem hér ætti að fara að gera að 1ögum, gæti orðið til frambúðar, ef bæjarfélögin aðeins vilji það. Já, það er nú rétt. Það er svo á pappírnum. En spurningin verður þá, hvort þau vilji, að þau séu til frambúðar. Þetta skiptir mestu máli hér í Reykjavík. Og hvað vill þá meiri hluti bæjarstjórnarinnar í Reykjavík? Meiri hluti bæjarstj. í Reykjavík er skipaður sjálfstæðismönnum og stendur að baki þessu frv., eins og þeir gera á þingi með framsóknarmönnum. Þessi flokkur vill afnema húsaleigulögin, og hann vil] og hefur barizt fyrir afnámi þeirra. Það er því helber hræsni að setja þetta ákvæði inn í frv., því að tilgangurinn er bersýnilega sá, að þetta komi til framkvæmda hér í Reykjavík, jafnskjótt og auðið er, því að ef það hefði ekki verið tilgangurinn, þá hefði sannarlega komið hljóð úr horni við umr. um málið, um að þetta ákvæði tæki ekki til Reykjavíkur. Þetta er því einber hræsni. Þetta er auðvitað gert í þeim tilgangi að afnema húsaleigulögin í Reykjavík. (KK: Ræður þá ekki meiri hluti kjósenda bæjarstjórninni í Reykjavík?) Jú, en það eru önnur mál, sem hefur verið veifað framan í kjósendur fyrir kosningarnar í vetur, en nú eru 4 ár til næstu kosninga, svo að það er nægur tími til þess að framkvæma þetta, og þess vegna er þetta gert nú.

Hv. frsm. sagði nú í seinni ræðu sinni, að hann væri mótfallinn till. okkar efnislega, af því að hvert bæjarfélag getur látið fara fram rannsókn á húsnæðisástandinu hjá sér, en í fyrri ræðu sinni sagðist hann vera henni mótfallinn, af því að það væri bara óþarfa vafstur. Hér er verið að samþ. frv., sem verður til þess að skapa hið mesta neyðarástand, fyrst og fremst hér í Reykjavík, og þá er það kallað óþarfa vafstur að láta fara fram slíka rannsókn. Spurningin er ekki um það heldur, hvort setja eigi löggjöf, sem skapar slíkt neyðarástand, alveg út í bláinn, en nokkurrar rannsóknar á húsnæðisástandinu og án þess að athuga það, hverjar afleiðingar slík löggjöf mundi hafa í för með sér. Því að aðalatriðið í þessu máli er, að sú rannsókn fari fram áður, en ekki eftir, að lögin eru sett. Hvað „vafstrið“ snertir, þá er hér ekki um neitt óþarfa vafstur að ræða, því að, þessi rannsókn er mjög einföld og auðvelt að framkvæma. Hv. 1. þm. N-M. sýndi meðal annars fram á það í sinni ræðu, að það væri hægt að fá upplýsingar þessar í sambandi við manntalið og að mikið af þessu lægi fyrir í brunamatinu. Í frv. framsóknarmanna um stóríbúðaskatt er einnig gert ráð fyrir slíkri rannsókn, og að hún verði framkvæmd fyrir 1. júní, svo að af því er sýnilegt, að flutningsmönnum þess frv. hefur ekki fundizt það erfitt eða miklum vandkvæðum bundið að framkvæma slíka rannsókn. Nei, það er ekki neitt vafstur, sem veldur því, að þm. getur ekki fallizt á till. okkar.

Hv. þm. sagði, að það þýddi ekki neitt að tala um frv. um stóríbúðaskatt núna, það væri orðið svo áliðið þings, og það mundi ekki vera hægt. að afgreiða það fyrir þinglausnir, enda hefði það líka verið borið fram á undanförnum þingum, en þá hafi ekki verið hægt að afgreiða það. En þá er spurningin: Hvers vegna hefur ekki verið hægt að samþykkja þetta á undanförnum, þingum, og hvers vegna er ekki hægt að samþykkja það núna? Hvers vegna er þessu máli þá svo, flýtt í gegnum þingið núna? Ætli það sé ekki af því, að viljann hafi vantað til þess að samþ. það? Ætli það hafi ekki vantað viljann hjá framsóknarmönnunum? Auðvitað eru agnúar á frv., sem þurft hefði að laga, en það, hefði engu að síður verið meiri hluti samþykkur frv. um stóríbúðaskatt, ef Framsfl. væri því fylgjandi. En það er sama ástæðan fyrir því, að það er ekki gert nú, og áður það, sem Framsfl. heldur á í vinstri hendinni fyrir kosningarnar, er ekki til þess að samþykkja eftir kosningar: Framsfl. leggur fram tvö frv. um húsnæðismál á þessu þingi: þetta frv., sem hér er til umr., og frv. um stóríbúðaskatt. Þessu frv. heldur Framsókn á í hægri hendi og hefur samvinnu við sjálfstæðismenn um að afgreiða, en ekki hitt. Annað frv. er lagt fram fyrir kosningar, og það á ekki að samþykkja eftir kosningar. Hitt, frv. í hægri hendinni, er lagt. fram eftir kosningar, og það er samþ. Hvernig sem framsóknarmenn reyna að koma sér undan þessu, þá geta þeir það ekki.

Hv. þm. talaði um tvær stefnur, sem um væri að ræða í þessu máli: heimastjórnarstefnu og íhlutunarstefnu ríkisins, og væri þetta heimastjórnarstefnan, sem felst í frv. Má ég þá spyrja: til hvorrar stefnunnar telst frv. um stóríbúðaskatt? Þá sagði hv. þm., að hann væri mótfallinn því að koma mönnum til að brjóta lög. Hvað þá um ákvæði 5. gr. þessa frv.? Heldur hv. þm., að þeim verði framfylgt um hámarksverð, og heldur hann, að það verði gert, þegar búið er að afnema allar hömlur á húsnæði og búið er að segja öllum upp? Hann veit, að það er algengt nú, að menn verði að borga oft svo þúsundum skiptir bara til þess að fá íbúðina, og verða svo að greiða fulla leigu eftir sem áður. Hann veit, að það er hrein vitleysa, að þetta frv. bæti eitthvað úr því, eins og hv. 6. landsk. þm. hefur sýnt fram á. „Á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela.“ Og þetta eru ekki mjóir þvengir, heldur eru þeir breiðir. Þetta telur hann kost á þessu frv., en þetta ákvæði er einmitt mjög siðspillandi. Þrátt fyrir allt, sem hv. þm. segir, þá koma húsaleigulögin að miklu gagni, einmitt af því að hindranir eru settar við því að segja leiguhúsnæði upp. Það er nú sannleikurinn í málinu.

Hv. þm. minntist á húsnæðisástandið í bænum. 1946 fór fram allsherjar rannsókn á húsnæði í bænum, svo að það má segja, að það sé kominn tími til þess að láta aðra slíka fara fram nú, en skýrslur af þessari rannsókn 1946 geta gefið verðmætar upplýsingar um ástandið, eins og það var þá. Íbúðir í bröggum voru þá 326, en síðan er vitað, að þeim hefur sama sem ekkert fækkað. Af þessum braggaíbúðum voru taldar lélegar eða óhæfar 70%. Íbúarnir í þessum íbúðum voru árið 1947 2.114, þar af 836 börn. Þá var enn fremur gerð athugun á kjallaraíbúðum 1946. Þeirri athugun var aldrei að fullu lokið, en skýrslur sýna, að það hafa verið rannsakaðar 1.884 kjallaraíbúðir, en eins og ég sagði áður, þá var rannsókninni ekki lokið að fullu, svo að viðbúið er, að mikill fjöldi þeirra hafi orðið útundan, en af þessum 1.884 íbúðum voru 50% lélegar eða óhæfar til mannabústaða, en allar voru þær ólöglegar. Þetta er nú það, sem rannsóknin 1946 sýnir. Árið 1946 voru um 6 þús. manns í þessum kjallaraíbúðum, þar af voru 2 þús. manns í lélegum, en 670 í mjög lélegum eða óhæfum, eða samtals tæplega 3 þús. manns í mjög lélegum eða óhæfum íbúðum. Þetta allt er hægt, að lesa í skýrslu hagfræðings bæjarins, nýútkominni. Húsnæðisþörfin, sem hann áætlar í Reykjavík, er um 500–600 nýjar íbúðir á ári. Heildarniðurstaða þessarar skýrslu frá 1946 sýnir, að allt að 1.000 fjölskyldur eru svo að segja húsnæðislausar, þ. e. a. s. búa í óhæfum bráðabirgðaíbúðum. (Forseti: Ég bið hv. þm. að afsaka. Á hann mikið eftir af ræðu sinni?) Nei, ég er rétt búinn með ræðuna.

Hv. frsm. meiri hl. hélt fram í sinni ræðu, að það væri of mikið byggt í Reykjavík, eða það yrði að athuga, hvort ekki væri of mikið byggt í Reykjavík. Nú er það vitanlega fjarstæða, að það sé of mikið byggt í Rvík. handa því fólki, sem þar á heima, eins og ég hef rækilega sýnt fram á, svo hv. þm. hlýtur að ætlast.

Til, að fólkið eigi að flytja þaðan burt. Nú vil ég spyrja hann: Hvert á fólkið að flýja? Er atvinnuástandið í bæjunum betra? Hann á sjálfsagt við, að það eigi að fara upp í sveit. En hvað eru það margir í sveitinni, sem geta borgað það kaup, að lífvænlegt sé? Þetta mundi þýða það, að leysa yrði heimilin upp. Ég man ekki betur, en gert hafi verið ráð fyrir því í áliti hagfræðinganna um gengisskráningu, að það mundi verða samdráttur í landbúnaðarframleiðslunni og flótti úr sveitunum. Hvert á fólkið að flýja? En út af þessu vil ég spyrja hv. þm. að því, hvers vegna hann gat ekki fengið inni fyrir þessa skoðun sína í Tímanum fyrri partinn í vetur eða haust. Þá voru birtar ákaflega margar greinar um húsnæðismál í Tímanum, feikilega skeleggar greinar. Það var auðséð, að flokkurinn hafði sérstakan áhuga fyrir húsnæðismálum. Fyrst slíkar skoðanir voru uppi í Framsfl., þá er undarlegt, að þessi skoðun skyldi ekki koma þar fram. Það sýnir sig meira að segja nú, að það er þessi skoðun, sem er ríkjandi hjá Framsfl. Hvers vegna fékk hún ekki inni í blöðunum, þegar mest var rætt um húsnæðismálin? Nei, það voru aðrar greinar, sem þá fengu þar inni. Það mun hafa verið 8. janúar, sem grein kom í Tímanum, ein af mörgum um húsnæðismál. Þar segir svo, orðrétt: „Hin hræðilega aðbúð í bragga- og fátækrahverfum bæjarins sviptir fólkið trú á lífið og framtíðina og hlýtur óhjákvæmilega að skilja eftir geigvænleg för í þjóðlífinu, ef ekki verður tekið í taumana og ráðin bót á ófremdarástandinu.“ Síðan segir frá því, að á s. l. hausti bjuggu 1.677 manns, þar af 419 börn, í bröggum og öðru húsnæði af því tagi og mikill fjöldi fólks í öðru húsnæði, sem telja verður með öllu óviðunandi. Þá stendur í annarri grein um svipað leyti: „Í mörgum af verstu vistarverunum, sem fólk í Reykjavík verður að sætta sig við og að áliti allra dómbærra manna eru heilsuspillandi hverjum sem er, búa fjölmargir, sem læknar hafa sérstaklega lagt bann við, að mættu dvelja í vondum húsakynnum heilsufars síns vegna. Margs konar heilsubrestir þjá þetta fólk, sumt er nýútskrifað frá Vífilsstöðum og Reykjalundi og þarf umfram allt að njóta góðra skilyrða, meðan það er að venjast eðlilegu starfslífi á nýjan leik.“

Þá segir í annarri grein um þessar mundir: „Blaðið hefur gert sér far um að sýna sem gleggst bölvun húsnæðisleysis, sem þúsundir manna, þar á meðal fjölmargar barnafjölskyldur, eiga við að búa. Það hefur reynt að sýna fram á, hvaða afleiðingar það hlyti að hafa fyrir mannfélagið, ef stór hluti af börnum bæjarins á í framtíðinni, eins og verið hefur nú um skeið, að alast upp við slíka kosti. Þær afleiðingar hljóta að verða andlegar og líkamlegar og höfuðstað landsins og þjóðinni býsna rýrar. Það hefur sýnt fram á, hvernig þrekminna fólkið gefst smám saman upp í hinni vonlausu baráttu, þegar samfélagið vill ekki eða hirðir ekki um að veita því liðsinni til þess að losna úr utangarðsvist í alls konar hrófum, sem eru eins fjarri því að vera mannabústaðir og skútar uppi í fjöllum. Það hefur sýnt fram á, hversu ægilegt ástand hér hlýtur að skapast, jafnskjótt og bóla tekur á verulegu atvinnuleysi. Og það hefur sýnt fram á, hvernig menn, sem raunverulega eru sjúklingar og ekkert annað, eru settir gersamlega á guð og gaddinn, í stað þess að búa þeim sjúkrahúsvist, þar sem þeir gætu unnið fyrir sér á sómasamlegan hátt, náð heilsu á ný og orðið nýtir menn í þjóðfélaginu. Framsóknarflokkurinn berst fyrir alhliða umbótum í kaupstöðum landsins. Hann hefur einsett sér að brjóta niður ofurvald fjárplógsmanna og uppræta spillinguna í þjóðfélaginu og gera eymdina og ranglætið útlægt. Vilji nógu margir kjósendur veita honum brautargengi, skapast ný viðhorf.“

Ójá, það voru nógu margir kjósendur, sem veittu honum brautargengi, og nú er árangurinn að koma í ljós, sá, að þúsundum kjósenda verður kastað á götuna.

Það mætti lengi halda áfram að lesa upp úr Tímanum. Það mundu verða miklu skeleggari ræður, en ég get flutt frá eigin brjósti. M. a. stendur einhvers staðar, að það sé býsnazt yfir, ef einhverjum sé styttur aldur úti í löndum, en hitt sé látið viðgangast, að börn í Reykjavík séu beinlínis borin út og svipt lífi vegna þess ástands, sem er í húsnæðismálum bæjarins. Og nú kemur bjargráðið. Það er þetta frv. Og þegar framsóknarmenn eru spurðir að því, hvað þetta fólk eigi til bragðs að taka, sem verður kastað úr íbúðum sínum, þá er svarið, að Reykjavík sé orðin of stór og fólkið eigi að flytja burt upp í sveit, en ég býst við, að það standi í þeim að svara því, hvert það eigi að flýja, þangað sem það geti lifað.