15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

49. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Út af þessum upplestri hv. 1. landsk. þm. vil ég segja örfá orð til að byrja með. Líklega veit hv. þm. það eins vel og ég, að Framsfl. hefur ekki stjórnað Reykjavík, en þaðan eru þær lýsingar, sem blaðið tekur. Framsfl. á því ekki sök á því, að þetta er lýsing á því, sem er að gerast. Sósfl. hefur haft meiri völd hér í Reykjavík en Framsfl., og hann ber því meiri ábyrgð á því, að þessi lýsing er rétt. Ég sé, að flokksbræður hv. þm. brosa að þessu, en þannig er þetta þó.

Mér virðist sem þetta mál sé nú að beinast inn á aðrar brautir, en því var í upphafi ætlað, og finnst mér það ekki viðeigandi, að það sé gert að flokksskammamáli. Málið hefur verið gert að Reykjavíkurmáli, en ekki landsmáli. Það hefur verið gert að flokkspólitísku máli, í stað þess að vera mál til úrlausnar aðsteðjandi vandamálum.

Ég bið menn að athuga það vel, að hér er ekki um það að ræða að afnema húsaleigulögin fyrir Reykjavík, og þess vegna á það ekki við, þegar hv. 7. landsk. þm. segir, að Framsfl. sé með þessu að ganga á móti stefnu sinni. Það, sem Framsfl. leggur til, er, að þeir bæir, sem álíta að húsaleigulögin eigi ekki lengur við hjá sér, og telja að þau séu til óþæginda fyrir sig, geti losnað við þau. Hv. 1. landsk. þm. sagði, að húsaleigulögin hlytu náttúrlega alltaf að vera til óþæginda fyrir einhvern, en ónauðsynleg óþægindi hefðu þau ekki. Ég held nú, að með þessari löggjöf sé verið að leggja málið þannig fyrir, að löggjöfin geti verið afnumin, þar sem hún á ekki við og er bara til óþæginda, en hins vegar að leyfa þeim landshlutum að hafa hana áfram, sem það vilja.

Hv. 7. landsk. þm. minntist hér á samvinnu sína við Framsfl., sem hann sagði hafa verið stofnaða af heilindum, en sagði jafnframt, að hann sæi ekki fram á það, að sú samvinna mundi geta haldið áfram, ef Framsfl. beitti sér með þessu móti, og sagði, að Framsfl. hefði ekki af miklu að státa í húsnæðismálunum og ætti því ekki að troða þeim niður í svaðið. En ég vil b.ara spyrja hv. þm. að því, af hverju hans flokkur eða hans gamli flokkur hafa að státa í þessum efnum. Ég hygg, að Framsfl. hafi átt meiri hlut að því, að hafin var bygging verkamannabústaða, heldur en hans gamli flokkur, og sömuleiðis frumkvæðið að samvinnubústöðum, og hygg ég enn fremur, þó að hv. 1. landsk. þm. hafi viljað gera lítið úr ákvæðum gengislækkunarlaganna um að verja ákveðinni upphæð til verkamannabústaða, þá hafi hann eða gamli flokkurinn ekki af neinu að státa í þessum málum. Hv. 7. landsk. þm. sagði, að aldrei hafi verið meira byggt hér á landi, en á dögum nýsköpunarstj. Það þykir nú ekki merkilegt, því að aldrei hefur annað eins fé verið í eigu landsmanna. En aldrei hefur fé verið varið til ónauðsynlegri bygginga, en meiri hlutinn af þessum byggingum er heldur, en á því tímabili, sem þá fór í hönd. Eftir að nýsköpunarstjórnin fór frá völdum, má segja, að betur hafi verið byggt, að byggt hafi verið við hæfi þjóðarinnar með hagsýni fyrir augum, og hafi það komið að meiri og betri notum og fyrir fleiri.

Ég vil, út af því, sem hv. 7. landsk. þm. sagði um samvinnu hans við Framsfl., geta þess, að mér hefur fallið vel samvinna við hann um mörg mál þann stutta tíma, sem við höfum verið saman, t. d. um sveitarstjórnarmál, og hefur mér þá fundizt, að við ættum samleið um að efla vald sveitarfélaganna gegn ofurvaldi ríkisins. En nú virðist mér hann vera orðinn ríkisvaldsmaður, hann, sem áður hafði tvær hendur, hefur nú bara eina, vinstri.

Ég verð nú að segja það, að ég fæ ekki séð, að Reykjavík fái með þessu neitt meira vald, en aðrir staðir. Það fá allir tækifæri til þess að losna undan lögunum, ef þeir vilja það og álíta, að það sé hagur að því fyrir borgarana. Og ég skil heldur ekkert í þessum þm., jafngáfuðum og gjörhugulum og hann er, að vilja ekki breyta húsaleigun. þannig, að hún verði skipuð bæði leigjanda og leigusala og sá þriðji sé skipaður af hæstarétti. Með því finnst mér, að hagsmunir beggja hljóti að vera tryggðir.

Hv. 1. landsk. þm. viðurkenndi þá skoðun mína núna í ræðu sinni áðan, að ónauðsynleg löggjöf gæti verið mjög siðspillandi. Ég er nú þeirrar skoðunar, að húsaleigulöggjöfin hafi verið ónauðsynleg mjög víða á landinu, og þar af leiðandi siðspillandi, þar sem hún hefur verið brotin af mönnum. Ég þekki tilfelli, þar sem húsaleigunefndir hafa ekki haldið fundi í mörg ár, en í 10. gr. húsaleigulaganna er ákvæði um það, að allt nýtt húsnæði, sem tekið er í notkun, skuli metið af húsaleigunefnd. Þetta ákvæði er því alltaf sniðgengið og er því ónauðsynlegt, og er því rétt að afnema það, þar sem því er ekki fylgt, og það er rétt að veita sveitarfélögunum heimild til þess að leysa menn undan þessu ákvæði. Það er miklu betra, en að láta menn brjóta lögin, því að það er vitanlegt, að menn hafa það alltaf á meðvitundinni, að þeir séu að brjóta lögin, þó að það sé jafnvel hagkvæmt fyrir báða aðila, og það veldur aftur því, að þeir hætta að bera tilhlýðilega virðingu fyrir lögunum, þeir hætta að gera greinarmun á þýðingarmiklum lögum og lögum, sem hægt er að sniðganga.

Tillaga sú, sem hv. minni hluti flytur hér, er um það, að ekki skuli neitt gert í þessu efni fyrr, en rannsókn hafi farið fram á húsnæðisástandinu, og á sú rannsókn að fara fram eftir reglugerð, sem ráðherra setur. Síðan á að safna skýrslum um húsnæðisástandið í landinu. Það var þessi rannsókn og þessar skýrslugerðir, sem ég tel vera ónauðsynlegt vafstur. Það kann að vera, að slík rannsókn eigi þó við í Reykjavík, — en getur þá ekki Reykjavík látið fara fram slíka rannsókn nú eins og 1946? Það hefur verið mikið um það talað, hve illa það hefur gengið að fá þeirri stefnu framgengt að afnema allt nefndafarganið, en hins vegar vilja þeir ekki afnema þær úr sögu þeirra góðu daga félagshyggjunnar. Nefndafarganið er nú orðið svo mikið, að margir eru þeir menn, sem muna ekki einu sinni, í hvaða nefndum þeir eru, svo mikil var ofrausnin í nefndaskipunum. En það er ekki að sjá, að menn séu neitt að tapa trúnni á þessum nefndum, þrátt fyrir allt tal þeirra, þegar þeir vilja nú fara að bæta fleiri nefndum við. Það fer fyrir þessum mönnum eins og Þorsteini matgoggi forðum, hann át alltaf meira og meira, unz yfir tók. Ráðið við ofstjórn er meiri ofstjórn, ráðið við of mikilli óþarfa löggjöf meiri óþarfa löggjöf, og bótin á nefndafarganinu verði ráðin með því að bæta við nýjum nefndum og nýjum skýrslugerðum. Það virðist sem hv. minni hl. sé í málflutningi sínum einna líkastur Þorsteini matgoggi.

Ég sagði á laugardaginn var, að Reykjavík yrði að gæta þess að álíta ekki, að ríkið tæki ótakmarkaða ábyrgð á byggingarframkvæmdum hennar. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé á móti því, að Reykjavík byggi yfir sitt fólk, en ég álít, að það sé vafasamt, að ríkið geri of mikið af því að styrkja hana í því og með því auka á fólkstrauminn til Reykjavíkur. Ég segi ekki heldur, að húsnæðislausa fólkið í Reykjavík eigi bara að flytja upp í sveit, því að ég veit, að sveitirnar geta ekki tekið á móti því eins og er, en ef ég væri spurður að því, hvert það ætti að fara, þá mundi ég svara því til, að það væri ástæða til þess að stuðla að því með lagasetningu, að fólkið snúi sér að framleiðslunni, og það þarf að búa þannig í haginn fyrir það í sveitum og með ströndum fram, að fólkið fari þangað, vilji fara þangað og geti farið þangað. Því að sannleikurinn er nú sá, að menn lifa ekki á húsnæði, heldur í húsnæði, og ég er viss um það, að hv. andstæðingar þessa frv., sem felur í sér þessa stefnu beint og óbeint, voga sér ekki að æskja þess, að þeir þjóðflutningar, sem verið hafa utan af landi, frá framleiðslunni til Reykjavíkur, haldi áfram.

Hv. 6. landsk. þm. talaði hér dálítið um áttir, hægri og vinstri. Ég verð að segja það, að mér finnst það hafa farið vel í sambandi við efni þeirrar ræðu, en ég get hins vegar ekki að því gert, að mér finnst hv. þm. hafa tekið nokkuð mikið loftkast þarna. Það rifjast upp fyrir mér í því sambandi, að einu sinni átti ég hest, fjörmikinn og gangléttan, og var hann talinn til góðhesta, en sá galli var þó á honum, að það kom fyrir, að hann hljóp út undan sér til vinstri. Ég átti tal um þetta við dýralækni, og hann sagði mér, að hesturinn hefði sjóngalla á hægra auga, og þess vegna hlypi hann svona út undan sér til vinstri. Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég heyrði orð hv. 6. landsk. þm. á laugardaginn. Hann virðist vera haldinn sjónhræðslu, því að honum virðist óhæfilegt, að samkvæmt 1. gr. frv. skuli leigusala vera það heimilt að leigja systkinum sínum eða skyldmennum í beina línu. Ég er nú hins vegar viss um það, að þegar hv. þm. athugar það betur, að ættarböndin hafa mjög mikla þýðingu í þjóðfélaginu, þá kemst hann á aðra skoðun. Ættarböndin hafa í þjóðfélaginu sömu hlutverkum að gegna og ræturnar í moldinni að vinna á móti upplausn og eyðingu.

Þá er þm. hræddur við það, að hæstiréttur tilnefni mann í húsaleigunefndina. Það kalla ég fáheyrt, því að hvar er þá hægt að fá hlutlausan aðila, ef ekki frá hæstarétti?

Þá missýnist hv. þm. mjög, ef hann heldur, að við þessa rannsókn, sem hann vill að verði látin fara fram, fáist upplýst, hvar húsaleigulögin hafa verið brotin með baksamningum og svörtum markaði. Það eru engar líkur til þess, að slíkt komist upp, því að menn hafa þarna sakarefni að verja, ef um einhverjar sakir er að ræða, og vilja þá leyna því í lengstu lög.

Nei, andstaðan gegn þessu frv. er sjálfráð eða ósjálfráð fælni frá raunveruleikanum. Frv. er um endurbætur á 6 greinum laganna, og mótbárur gegn því eru meira fluttar af kappi og til málamynda heldur en forsjá. 7. gr. leggur það hins vegar til, að bæjar- og sveitarfélög fái að ráða því sjálf, hvort húsaleigulögin skuli hafa gildi þar eftir þann tíma, sem ákveðinn er í gr. Og ég hef fært fyrir því rök, að það sé viðsjárvert að hafa húsaleigulögin, eins og víða er úti á landi, þar sem þau eru aðeins siðspillandi pappírsgagn. Þau eru siðspillandi vegna þess, að menn hafa tilhneigingu til þess að brjóta þau, eða hafa það að minnsta kosti á meðvitundinni, að þeir séu að brjóta þau, og þegar menn eru einu sinni farnir að brjóta ein lög, minnkar virðing þeirra á öðrum lögum, sem mikilvægari eru. Og ég held, að Reykvíkingar þurfi ekki að vera hræddir við þetta frv., ef að lögum verður, því að hver einasti maður sér, að Reykjavíkurbær hlýtur að halda í þessa löggjöf, ef einhverjar líkur eru fyrir því, að þær lýsingar, sem hér hafa verið gefnar á húsnæðisástandinu í bænum, séu á rökum reistar, Ég veit þá, að meiri hluti bæjarstj. í Reykjavík er skipaður óvenjulegum illmennum, ef hann lætur ekki löggjöfina halda gildi sínu, ef þær lýsingar, sem hér hefur verið getið, eru sannar, og ef hann skirrist við að halda lögin, þá er ég viss um það, að hið langþráða takmark andstöðuflokka meiri hlutans er upp runnið til þess að fella hann, og þá getur kannske Alþfl. eitthvað stækkað og Sósfl. gefið um það skýrslu til yfirboðara sinna, að þeim hafi nú tekizt að afreka eitthvað.