02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. varð sammála um þetta frv., þannig að efnislega vill hún fylgja því, en gerði á því ýmsar umbætur eða vildi kveða nákvæmar á um ýmis atriði, en lítið er það og fremur formbreytingar. Og náðist þá samkomulag. Breyt. þær, sem gerðar eru á frv., eru aðallega fólgnar í því, að eigi er gert ráð fyrir, að ákvæðin um ágang búfjár nái til girðinga, sem einstakir menn eiga. En svo er viðaukagr., sem gerir þeim fært að leita til hreppsnefnda eða bæjarstjórna, hvort þær vilji ákveða, að skógrækt þeirra fái þá vernd, sem í frv. greinir. En vilji þær ekki gera þetta, þá geta þeir snúið sér til skógræktarstjóra og lagt skógræktarsvæði undir tilsjón hans, en þurfa þá eigi að leita til hreppsnefnda eða bæjarstjórna um þessi atriði. Það getur komið fyrir, að þetta verði snúningasamara, en ég býst við, að hægt sé að koma fram fullum hefndum á því búfé, sem ráðizt hefur áður inn á skógræktarsvæði, þannig að því verði lógað. En hins vegar er ekki rétt að heimta, að því sauðfé verði lógað, sem komizt hefur inn fyrir vegna þess, að girðingarnar hafa ekki verið í lagi. Er það gert til þess, að eigi sé lógað fé, sem ekki hefur reynt að ráðast á löghelgaðar girðingar.

Þá er bætt ákvæði inn í frv. skv. ósk hv. 7. landsk., sem sýndi fram á, að þeir, sem hafa trjálundi, í aðalkaupstöðunum og víðar, eiga við sömu erfiðleika að búa. Þetta kemur eins og engisprettuplága á einni nóttu og eyðileggur mikið í sömu svipan. Okkur þótti þetta því rétt og sáum okkur eigi fært að setja okkur á móti því, að b-liður yrði settur í frv. Teljum við það sjálfsagt. En þetta er líka komið undir því, hvort slík vernd verður veitt af hálfu hreppsnefnda eða bæjarstjórna.

Annars er hér ekki um verulegar breyt. að ræða, og gat ég sætt mig við þetta og hef líka borið það undir þá menn, sem stóðu að því, að frv. var flutt.

N. leggur til, að brtt. á þskj. 379 verði samþ. í stað 1. gr. frv. sjálfs.