02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég vil geta þess undireins, að óski hæstv. dómsmrh. eftir að fá námskeið í frv., þá tel ég víst, að hv. 1. þm. N-M. sé tilbúinn að veita honum það. Hann er gamall kennari, og hefur verið talið, að honum léti eigi sízt starfa að kenna. — Annars fæ ég ekki séð, að þetta sé svo stórlega flókið. Það er svo að skógræktarstjóri hefur „registrerað“ þau skógræktarsvæði, er hann hefur tekið í umsjá sína, og lætur menn frá sér líta á staðinn, sjá um viðhald og sæmilega meðferð. Ég held, að það sé þetta, sem hann vildi aðallega leggja áherzlu á. En ég sé ekki betur en hreppsnefndir og bæjarstjórnir mundu leyfa þetta og gera þau ákvæði, að trjárækt aukist hjá þeim. Ég held, að eigi komi að sök, að innanhéraðsmenn verði úttektarmenn, og ég hef hvergi orðið var við, að þeir séu hlutdrægir í slíkum málum, enda er sett fyrir þann leka með því, að sýslumaður eða bæjarfógeti kveðji þá óvilhallan mann eða menn í stað þeirra. Ég held, að það þurfi því eigi að óttast rangdæmi.

En menn hafa um tvennt að velja: skjóta sér undan eftirliti skógræktarstjóra og snúa sér til hreppsnefnda eða bæjarstjórna og „vice versa“, undan eftirliti hreppsnefnda eða bæjarstjórna og til skógræktarstjóra, ef þær snúast illa við málinu. Hér er því eigi um að villast. Gátum við fallizt á þetta og þótti það réttara, þó að orðalagið sé ekki eins skýrt og hæstv. dómsmrh. vill vera láta, og gæti ég umturnað því.

Þegar hæstv. ráðh. talar um að fresta afgreiðslu málsins, þá er þar af að segja, að frv. hefur verið borið undir formann Skógræktarfélags Íslands. Hér situr nú varaformaður þess. Held ég, að hann sé ekki öndverður málinu. Ég sé því ekki ástæðu til að senda frv. til umsagnar Skógræktarfélagsins.