02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

103. mál, skógrækt

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég mundi greiða atkv. með þessari brtt., ef eigi er hægt að fá frv. samþ. eins og það var. En það hefði verið eðlilegast að fá það samþ. eins og gengið var frá því á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands árið 1949. Fjöldi bænda var á þessum fundi. Mæltu þeir ákveðið með málinu og töldu, að það yrði að sýna víðsýni og setja lagaákvæði um slík meindýr sem sauðféð er. Hér er fyrst og fremst um ásókn fárra skepna að ræða. Þær ganga á undan, síðan koma lömbin á eftir og þannig áfram koll af kolli. Svipuð ákvæði þessum eru í l., eins og minnzt hefur verið á, og þess vegna er ekki óeðlilegt, að skógræktin njóti sömu verndar, eins og er t. d. í sandgræðslul. Ég átti dálítinn þátt í þessu máli á fundinum, vegna þess að ég geri mér það ljóst, að þó að skógræktin sé rétthá og rétt sé að gera mikið fyrir hana, þá er sauðfjárbúskapur ein höfuðatvinnugrein Íslendinga, og verður því að taka fullt tillit til hennar. Það er vitað mál, að þessi atvinnugrein verður ekki rekin, nema nokkuð mikið sé beitt bæði vetur og sumar. Mér virtist allir vera sammála um, að nægilegt tillit væri tekið til sauðfjárræktar í þessu frv., ekki sízt, þar sem gert er ráð fyrir, að sé skepnu slátrað á óvenjulegum tíma árs, þá á sá, sem gerir til þess kröfu, að bæta allan skaðann, svo að það getur aldrei orðið tjón fyrir sauðfjárræktarbóndann. Vitanlega mundi ég kjósa, að frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, en ég hef gengið inn á að samþ. þessa breyt., vegna þess að meðflm. minn að frv., hv. 11. landsk. þm., hefur skýrt mér frá því eða álítur, að ekki muni hægt að koma málinu fram með öðru móti, en að gera þessar breyt. Og aðeins út frá því sjónarmiði, að betra sé að fá þetta samþ. heldur en ekki neitt, fylgi ég málinu.