02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

103. mál, skógrækt

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. fyrir það, að hann vísaði mér á svo gott námskeið sem hann gerði, en ég hygg, að þau orð hans hafi raunar sannað, að hann hafi ekki, þótt ótrúlegt sé, áttað sig á skyldu sinni sem frsm., vegna þess að skylda frsm. er að halda stutt námskeið fyrir dm. og gera grein fyrir því máli, sem honum er falið að kynna sér. (ÞÞ: Það virðist þurfa langt námskeið í þessu tilfelli.) Ég held honum væri nær, ef hann treystir sér ekki til að hafa svo langt námskeið, að fela hv. 1. þm. N-M. að gera það, því að honum treysti ég betur til að mæla fyrir röngu máli heldur en hv. frsm. þessa máls. En undirbúningsleysi hv. frsm. kom glögglega fram í því, að hann gat ekki gert hv. d. grein fyrir því, hvernig varið væri þessari umsjón skógræktarinnar með skógræktarlöndum einstakra manna. Ég tek lítið mark á því, þó að hann vitni hér til skilríkra manna, sem hann hefur talað um þetta við, eins og t. d. skógræktarstjóra. Á hinu hefði ég tekið meira mark, ef hann hefði vitnað í lagaboð og gert grein fyrir, hvernig þessu væri varið, og þeir, sem í alvöru vildu sinna því hlutverki að halda námskeið um þetta efni, hefðu kynnt sér, hvaða lagareglur giltu um þetta og hvaða kvaðir væru samfara þeim, en hefðu ekki leitað til þess, sem hann gerði í þessum efnum. Að öðru leyti virðist mér það hafa komið fram í ræðu hv. þm. Str., að það er rétt, sem ég óskaði eftir, að æskilegt væri, að Skógræktarfélag Íslands, sem mun standa að flutningi þessa frv., láti uppi umsögn um brtt., vegna þess að ég hygg, að ekki fari fjarri því, að verði brtt. samþ., þá sé gildi frv. þar með úr sögunni og málinu að langmestu leyti eytt, eins og reyndar kom fram strax við 1. umr. Að minnsta kosti heyrði ég það útundan mér, að hv. 1. þm. N-M. var lítið um frv. gefið, og það er ljóst, að hann hefur hlunnfarið meðnm. sína í þessu máli af undirhyggju og klókindum, eins og honum var treystandi til.

Ég skal ekki rekja þetta frekar, en aðeins drepa á það, vegna þess að hv. frsm. gat þess, að ekki þyrfti að óttast, þó að hreppsn. væri látin hafa úrskurðarvald um málið, að á því er engin launung, að sums staðar og einmitt þar, sem hafa orðið deilur út af ágangi búfjár á skóga, hafa hreppsbúar margir verið algerlega andvígir þeim skógræktartilraunum, sem þar hafa verið gerðar, þannig að allir kunnugir vita, að ef eftir þeirra dómi hefði átt að fara, þá hefði sú tilraun aldrei átt sér stað, og þeir grétu víst þurrum tárum, þó sú tilraun færi út um þúfur. Það hefði ég haldið, að jafnglöggskyggn maður og hv. frsm. er hefði átt að vita, ef hann hefði ekki látið aðra sér verri menn véla sig út af réttri braut í þessu máli.