02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

103. mál, skógrækt

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég verð að taka undir það, eftir að hafa hlýtt á þennan fróðlega fyrirlestur hv. 1. þm. N-M., að það hefði verið miklu skynsamlegra fyrir hv. 11. landsk. þm. að fela honum að halda námskeiðið frá upphafi. Samvizkusemi hv. 1. þm. N-M. lýsir sér í því, að þó að hann ætti ekki að búa sig undir að hafa framsögu í þessu máli, þá er sannað, að hann eyðir nóttunni til að lesa fræðirit, til þess að vera við öllu búinn, ef aðrir skyldu verða uppiskroppa, og kom það sér vel nú. Og ég held, eftir að hafa heyrt þessa ræðu, að hv. landbn., eins og hún er nú skipuð, ætti ekki að hafa annan frsm. en hv. 1. þm. N-M.

En ég vildi gera hér smáathugasemd, því að mér virðist hafa sannazt á orðum hv. 1. þm. N-M., að þessi umsjón skógræktarstjóra með skógarlöndum og görðum einstakra manna eigi sér ekki stað, svo fremi þessi skógrækt sé ekki styrkt af ríkinu. Ég hafði þá hugmynd áður, en ég fann, að hv. 1. þm. N-M. var mér sammála um, að þetta ætti sér ekki stað, og það var einmitt vegna þess, að ég hafði óljósan grun um, að því væri svo varið, að ég óskaði að fá vitneskju um, við hvaða lagaheimildir þessi umsjón styddist, ef hún væri fyrir hendi. Ef hún er fyrir hendi, þá er sjálfsagt að kannast við hana, en ef hana vantar inn í l., þá verða að vera einhverjar heimildir eða reglur um það, hvernig henni skuli vera varið. Það hljóta allir að sjá, sem um þetta hugsa. Ég verð að segja það, að hv. frsm. hefur illa verið blekktur, ef hann hefur látið hafa sig til að breyta frv. undir yfirskini slíkrar umsjónar, sem hv. 1. þm. N-M. hefur upplýst, að á sér ekki stað. Ég vil líka benda á það, að það er mjög óeðlilegt að láta þá einstaklinga, sem sjálfir hafa kostað skógrækt og að öðru leyti styrkjalausa, njóta lakari réttarverndar en aðra, ef þeir á annað borð fullnægja skilyrðum um gæði girðinga, og ég verð að telja þau lagaboð, sem hníga í þá átt, mjög ranglát og horfa til ills, en ekki bóta.

Þá verð ég einnig mjög að efast um það, að skilningur hv. 1. þm. N-M. á frv., eins og það liggur fyrir, fái staðizt varðandi það atriði, ef sauðfé kæmist inn í girðingar vegna snjóa. Ef girðingin út af fyrir sig er fjárheld, þá hygg ég, að eins og frv. nú liggur fyrir og brtt., að þá mundi slíkt fé réttdræpt. Ég get ekki skilið frv. og brtt. á annan veg. Ef það er annað, sem vakir fyrir n. og flm., þá er það atriði eitt af því, sem athuga þarf betur, því að það er vafasamt, ef ekki ljóst, að féð væri réttdræpt, og ef þetta er réttlætismál, þá á að senda það til umsagnar stjórnar Skógræktarfélags Íslands og ekki taka það til lokameðferðar, fyrr en sú umsögn hefur legið fyrir í málinu. Það er til lítils að samþ. frv., ef mestu áhugamenn um þessi efni telja frv. ófullnægjandi, og það lýsi sér af orðum hv. þm. Str., að hann taldi frv., eftir brtt., lítt fullnægjandi.