02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

103. mál, skógrækt

Eiríkur Einarsson:

Það var ekki ætlun mín að ræða um þetta frv., en að gefnu tilefni vildi ég sem einn nm. í landbn., sem hefur, eins og lýst hefur verið, verið hlunnfarin, lýsa mig auman. Ég er ekki að sjá eftir því, þó að ég hafi skrifað undir nál. athugasemdalaust. Það er tekið fram hér, að brtt., sem liggur fyrir, sé nokkurs konar málamiðlun og samkomulagsgrundvöllur, vegna þess að það var ágreiningur í n. um afgreiðslu frv., og ég játa það, eins og kom fram á nefndarfundi, að ég er nokkuð tortrygginn um framgang þessa frv. Ég játa að vísu, að það er borið fram í góðu skyni og tryggir öruggari skógrækt í landinu, og vitanlega er ekki nema það ágætasta um það að segja. En þrátt fyrir frv., miðað við að það verði að l., hvort sem brtt. er samþ. eða ekki, þá er nú vandasamara að fylgja því þannig eftir, að til gagns verði, heldur en að koma því dálítið álitlega fyrir á pappírnum. Það er þessi varnagli, sem settur er í brtt. um það, hverjir eigi að vera úrskurðarmenn um ágreining. Ég gat verið með því, því að endanleg úrslit samkvæmt brtt. eru í höndum dómkvaddra manna, en það er auðvitað nauðlending, þegar allt er komið í þrot um samkomulag á annan hátt. En hversu góðir sem þessir menn eru, þá er þeim yfirleitt ekki treystandi með tilliti til þess arna, þeir, sem mundu færa sönnur á, hvort girðingin er góð eða ekki það eru túnrollurnar sjálfar, þær laumast með óskiljanlegum hætti um hin torsmognustu net. Ég er þess vegna hræddur um, að það verði erfitt að framkvæma þessa löggjöf, vegna þess hvað torvelt er að verja þessar girðingar. Undirstaðan verður náttúrlega aukið öryggi með girðingarl. sjálfum, og er þar að mínum dómi auðveldara að segja, heldur en framkvæma og ganga þannig frá girðingarl., að öruggt verði. Það má vel vera, en ég er ekki svo viss um það, að það séu vissir fjárstofnar, sem séu sérstaklega áleitnir, og ef lömbunum sé útrýmt, þá sé sauðkindin búin að missa sinn sauðþráa. Ég er tortryggnari en svo og held, að sauðkindin, með sitt sauðareðli, sé sjálfri sér lík og komi stofn af stofni, sem sanni það. Þið, sem eruð klókir, þekkið, hvernig það berst frá manni til manns, frá kyni til kyns, það þýðir ekki að einangra nokkra menn til þess að þá verði allir einfaldir sem dúfur. Ég er líka hræddur um, að þegar á að fara að dæma þetta og varðveita svæðin, þá verði þetta upplagt mál að ýmsu leyti til að verða eldkveikjumál og illt út úr því. En samt sem áður var það vegna þess, hvað tilgangurinn með þessu er góður, að ég treysti mér ekki til annars, en að vera með frv. með þeirri breyt., sem kemur fram á brtt. okkar á þskj. 379. Ég finn, að l. um girðingar eru hreystiorð. Kindurnar smjúga, sá sem á að líta eftir finnur aldrei út, hvar þær fara, þær þekkja veginn. Ég vildi gjarnan, að það kæmi fram, að ég finn ágalla á frv. á ýmsan veg, þó að ég vegna markmiðs þess, sem er gott, treysti mér ekki til að skera úr um það. En ég finn jafnframt, að það á að fara á ákveðnari hátt að vernda betur, en gert hefur verið öll ákvæði um lögmæltar girðingar, og það verður aldrei nein sérfræði, nema kannske hyggileg lagasetning, sem skapar öryggi í þessum efnum. Til þess að þessi lagasetning megi koma að notum, sem ég vildi óska, því ég er henni í meginatriðum fylgjandi, þá þarf ákvörðun um girðingar og girðingarl. að treystast langtum betur, en orðið er, ef unnt væri.