02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

103. mál, skógrækt

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál, en það eru fáein atriði, sem ég vil þó minnast á. Mér er vel ljóst, að með þessari lagasetningu er ekki fyrir allt girt í þessu sambandi, en mér er of vel kunnugt um það, hvert tjón getur orðið af einstökum ættum eða stofnum í þeim löndum, sem afgirt eru, til þess að ég vefengi nauðsynina á því að setja skýr ákvæði um þetta. Ég er sammála hv. 1. þm. N-M. um það, að brtt. n. taki margt fram, sem nauðsynlegt er að taka fram og ekki var fram tekið í frv. En hins vegar er það svo, að mér sýnist hafa komið fram við umr. og við nánari athugun á brtt., að það sé sitt hvað í þeim, sem betur megi fara. Ég ætla aðeins að benda á 3 atriði, sem mér sýnist dálítið hæpin. Í fyrsta lagi stendur í brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Komist búfé inn á skógræktarsvæði, sem skógræktarstjóri hefur umsjón með.“ Mér finnst þessi klausa bæði dálítið hæpin í sjálfu sér og enn fremur finnst mér þetta ákvæði vera óljóst. Það getur verið, að það sé vegna þess að ég þekki ekki nógu vel viðkomandi löggjöf, en mér finnst óljóst, hvernig þessari umsjón skógræktarstjóra á að vera háttað. Í öðru lagi er hér talað um girðingu, sem viðurkennd hefur verið fullgild vörn af viðkomandi úttektarmönnum. Er ekki dálítið hæpið að taka svona til orða án þess að nokkuð ákveðið liggi fyrir um það, við hvað úttektarmennirnir á hinum ýmsu stöðum í landinu eiga að miða úrskurð sinn þessu viðkomandi? Í þriðja lagi vil ég benda á ákvæði brtt. um tvöfalt niðurlagsverð, ef galli á girðingunni hefur orðið þess valdandi, að féð komst inn. Mér finnst þetta ekki þannig fram sett eins og efni standa til, miðað við þá skýringu, sem hv. 1. þm. N-M. gaf á þessu atriði. Ég skildi hann svo, að það væri til þess ætlazt, að þetta atriði kæmi aðeins til framkvæmda, ef fé hefði verið lógað og síðan kæmu í ljós áður ókunnir gallar á girðingunni. Hafi ég skilið þetta rétt, þá finnst mér þetta orðalag ekki eins og skyldi. Það má vera, að þessi ábending mín sé ekki fullskýr, og ég er ekki við því búinn að leggja fram brtt. um þetta nú, en ég vildi mælast til þess, að hv. landbn. athugaði þetta. Það þarf ekki að fresta umr. vegna þess, heldur gæti hún aðeins litið yfir þetta milli umr.