03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég held, að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugunni. Um þetta eru engin ákvæði í l., og þá verður málvenja að gilda. Við vitum allir, að það er sitt hvað skógræktarsvæði og trjáræktarreitur. Svæði tekur yfir hálfa dagsláttu eða meira, en reitir undir trjágarða eru litlir um sig, aðeins nokkrir metrar. Hér er sagt, að um þá gildi ákvæði 19. gr., ef þeir falla ekki undir ákvæði 18. gr. Ég held, að það dugi að skýra frá þessu í framsöguræðu, og vil skora á hv. form. n. að fallast á þetta. Annars eru engin vandkvæði á því að setja visst metratal, t. d. að trjáreitur sé 300–400 metrar, ef hann getur ekki tekið undir þetta með mér.