03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

103. mál, skógrækt

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta það, sem ég sagði áðan. Eins og frv. kom frá landbn., þurfti engin ákvæði um stærð skógræktarsvæða, en verði þessar brtt. samþ. gegnir öðru máli. Hv. frsm. vísaði til málvenju um þetta, en hún er sitt á hvað. Ég skal nefna sem dæmi Skáney. Þar hefur verið afgirt svæði ofan við túnið og plantaður skógur. Þetta er ýmist kallaður trjáreitur eða skógarsvæði. Norður í Vatnsdal er reitur afgirtur hjá bónda fyrir skógrækt. Hann gengur jöfnum höndum undir nöfnunum skógræktarsvæði og trjáræktarreitur. Það er því ekki rétt, að um þetta gildi málvenja. Það kann að vera svo einhvers staðar á landinu, en ég held þó ekki. Ég man eftir þriðja dæminu í Lundarreykjadal, þar sem trjáreitur og skógræktarsvæði gengur jöfnum höndum. Hér er því ekki um nein glögg takmörk að ræða. Ég er á móti 1. og 3. brtt. og tel mér ekki skylt að gera breyt. á þeim nú, þó að þurft hefði að taka inn ákvæði um stærð skóglendisins. Ef þessar till. hefðu komið fram við 2. umr. og verið samþ., hefði ég hins vegar hiklaust komið fram með brtt. í þá átt.