09.12.1949
Efri deild: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

55. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það stendur eins á um þetta mál og undanfarið mál. Það var lagt fram af fyrrverandi fjmrh. í sambandi við fjárlagafrv. Með frv. er farið fram á, að heimildir þær, sem ríkisstj. voru veittar með ákvæðum 3. gr. l. nr. 98 frá 9. júlí 1941, sbr. l. nr. 129 29. des. 1947, skuli gilda til ársloka 1950. Í aths. er það tekið fram, að þetta ákvæði hafi gilt undanfarið, frá ári til árs, og ekki sé tímabært að hrófla við því. En 3. gr. l. frá 1941 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt: 1. Að fella niður til ársloka 1942“ — þannig var þetta orðað fyrst, en heimildin hefur verið endurnýjuð, eins og áður er sagt — „tolla af: baunum, ertum, linsum, höfrum, maís og annarri ómalaðri kornvöru; mjöli: úr hveiti, úr rúgi“ — síðan eru taldar margar fleiri tegundir —. „2. Að lækka um helming til sama tíma tolla af: sykri, strásykri, höggnum sykri“ — fleiri tegundir eru taldar —. „3. Að hækka um allt að 50% til sama tíma tolla af: áfengi og tóbaki, svo og gjald af innlendum tollvörutegundum... Alþ. hefur margendurtekið þessa heimild, og vil ég mælast til þess, að hv. d. vísi frv. að lokinni þessari umr. til 2. umr. og fjhn.