24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 205 er flutt af hv. þm. Mýr., hæstv. fyrrv. landbrh., sem er einn af fulltrúum í verkfæranefnd ríkisins. Landbn. hefur lagt til, að frv. verði samþ. með breytingum þeim, sem hún flytur á þskj. 536. Þegar l. voru sett í ársbyrjun 1945, var gert ráð fyrir, að þær 6 millj. kr., þar af 3 millj. úr ríkissjóði, sem þar eru nefndar, mundu nægja til verkfærakaupa og annars í sambandi við þau l. Lög þessi hafa nú staðið í 5 ár og gert mikið gagn, svo að ræktun hefur vaxið mjög mikið í landinu. Nú hefur komið í ljós, að fé þetta, sem hefur verið í vörzlu verkfæranefndar og Búnaðarfélags Íslands, nægir ekki til þess, að fullt samræmi verði milli vélakosts þess og styrks, sem hin einstöku svæði í landinu fá. Þetta fór einkum að koma í ljós á síðari hluta ársins 1949, en þá urðu miklar verðhækkanir á þessum vélum, og má búast við, að það verð muni ekki lækka. Síðastliðið haust lét svo verkfæranefnd fara fram athugun á því, hve mikið fé mundi þurfa til að standa undir þessu, og varð niðurstaðan sú, að 2,5 millj. mundu vanta til viðbótar við þessar 3 millj. kr., sem áður höfðu verið veittar, og við gengislækkunina var það sýnilegt, að upphæð þessi mundi hækka um ½ millj. kr., og er það tekið fram hér. N. vill, að þetta verði samþ., þó að vitað sé, að lítið sé í sjóði, svo að leggja verður úr ríkissjóði í þessu skyni á næstu 3–4 árum, og mun n. beita sér fyrir því á þessu þingi, að það verði gert.

Þá vildi ég segja nokkur orð um 2. brtt. á þskj. 536, en hún er byggð á bréfi frá Búnaðarfélaginu og stafar af samþykkt, sem gerð var á síðasta búnaðarþingi. Landbn. hefur orðað till. um og gert hana nokkru skýrari. Í till. er gefin heimild til að ávaxta séreignir ræktunarsambandanna heima í héraði, en hér er um einn sjóð að ræða, framkvæmdasjóð landbúnaðarins, og er hann undir stjórn Búnaðarfél. Íslands. Þá er ræktunarsamböndum og félögum heimilt með samþykki Búnaðarfél. að hafa allt að helmingi fyrningargjaldsins í rekstri sínum gegn sýsluábyrgð og sömu vöxtum og innlánsvextir í Búnaðarbankanum eru. Þetta er gert vegna þess, að mörg búnaðarsamböndin og félögin eru í fjárþröng og í vandræðum með framkvæmdir og er því heimilað þetta. Ég vona svo, að þessu verði vel tekið, því að þetta er mjög þýðingarmikið mál fyrir sveitarfélögin, og vona ég því, að menn sjái og viðurkenni þörfina, sem að baki þessu liggur.