24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég get mjög tekið undir með hv. frsm. landbn., að mikil þörf sé þessara breytinga, sem hér eru gerðar, og mun ég fyrir mitt leyti styðja það, en þó vil ég vekja nokkra athygli á síðustu mgr. brtt. Það getur orkað tvímælis, hvort halda megi eftir af jarðræktarstyrknum til að vega á móti því, sem vangoldið er í fyrningarsjóð. Það er vitað, að styrkur þessi er persónuleg eign þess, sem hlýtur hann. Hann getur að vísu gefið öðrum styrkinn, en að hægt sé að taka hann þannig með l. án samþykkis hlutaðeiganda, það finnst mér nokkuð mikið gengið á eignarréttinn. Það er að vísu vitanlegt, að flestir þeir menn, sem hljóta þennan styrk, eru í búnaðarsamböndum, en eigi að síður finnst mér ekki hægt að ráðstafa þessu fé án samþykkis eigendanna. Ég vil því vekja athygli nefndarinnar á þessu, áður en gengið verður til atkvæða.