28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í l. þeim, sem hér á að breyta, er verið að tryggja kaup á ræktunarvélum og skurðgröfum. Það er búið að styrkja nokkuð skv. ákvæðum þessara l., en orðið hefur að hætta í miðju kafi. Hér við bætist, að þessi áhöld eru hin nýtilegustu, sem til landsins hafa komið, og fyrir allar verklegar framkvæmdir. Þótt þau hafi verið keypt af búnaðarsamböndunum, þá hafa þau einnig verið notuð til annarra framkvæmda, og þetta hefur gert byltingu í verklegum efnum. Það er sjálfsagt eigi hægt að verja peningunum betur en til þess, að þróunin geti haldið þannig áfram. Nú var gert ráð fyrir því, að féð mundi duga til þess að bera áætlunina til enda, en nú þegar hefur verið rætt um hækkun heimildarinnar í þessu skyni. Þótt þetta verði samþ., þá er eigi þar með samþ., að allir peningarnir gangi til kaupanna, því að á því stendur, hverjar fjárhæðir verða tilteknar. Þessar fjárhæðir verða eigi hærri, en leyfi þau, sem gefin verða, og eigi örar lagðar fram, en fjárhagsgetan leyfir og ákveðið verður á fjárl., a. m. k. meðan núverandi ríkisstj. situr. Því að þetta er eins konar rammi í l., þar sem áætlað er, en það verður ákveðið í fjárl., og ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að fjárhæðirnar verði teknar upp í fjárlagafrv. Hér er um heildaráætlun að ræða í l., sem sýnist þurfa að hækka, til þess að þetta þurfi eigi að stranda, þegar frá líður, á heimildarskorti. Það væri hægt að styðja þetta plan með einfaldri ákvörðun í fjárl. án þess að breyta l., en af því að þetta var upphaflega sett í löggjöfina, þá sem hér er til meðferðar, virðist eðlilegt að breyta hámarksákvæðinu. Hér er m. ö. o. um að ræða ramma, sem fyllt verður smátt og smátt upp í með fjárlagasamþykktum.