28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Finnur Jónsson:

Ég vildi leyfa mér út af þessu máli að beina fsp. til hæstv. fjmrh. — Mér er ljóst, að innflutningur stórvirkra landbúnaðarvéla er nauðsynlegur til þess að geta komið ræktuninni í fyrirhugað horf. Á hitt þarf þó eigi að draga neina dul, að eins og sakir standa, er lítið um gjaldeyri. Nú vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann telji, að innflutningsáætlun þessa árs geti verið svo rúm, að hægt verði að flytja inn verulega mikið af þessum vélum eða í áttina við það, sem lagt er nú til, að fjárveitingin nemi. Ástæðan til þess, að ég spyr, er sú, að mér er kunnugt um, að það liggur við, að þær vélar, sem nú er búið að kaupa til landsins, stöðvist í sumar vegna vöntunar á varahlutum. Mér er kunnugt um það, að gjaldeyrisyfirvöldin treysta sér ekki til að veita vélasjóði ríkisins meira en helming af þeim gjaldeyri, sem sjóðurinn hefur sótt um til að geta haldið skurðgröfum þeim, sem þegar eru komnar til landsins, í fullum gangi. Ef svo er, að eigi sé hægt að flytja inn vélahluti til að halda skurðgröfunum í gangi, þá er ólíklegt, að ástandið sé svo, að hægt verði að flytja inn mikið af nýjum skurðgröfum, og þá virðist hækkun fjárveitingarinnar óþörf, þótt annars kunni hún að vera réttlætanleg í framtíðinni, þegar gjaldeyrisástandið verði þannig, að hægt sé að flytja inn þessar vélar. En ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. hefur verið kunnugt um þetta. Ef svo er eigi, er æskilegt, að hann kynnti sér þessi mál, því að nauðsynlegt er að hafa stjórn þeirra þannig í framkvæmd, að vélar þær, sem fyrir eru í landinu, notist að fullu.