15.12.1949
Efri deild: 14. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

55. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Fjhn. hefur athugað þetta mál og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þetta frv. er um það, að heimildir þær, sem ríkisstj. voru veittar með ákvæðum 3. gr. l. nr. 98 9. júlí 1941, verði framlengdar árið 1950. En þessi l., sem hér er vitnað í, voru, eins og menn sjá, sett í byrjun stríðsins og áttu þá að nægja sem dýrtíðarráðstafanir. Þessar heimildir, sem um getur í 3. gr., eru í þremur töluliðum. Í 1. lið er ríkisstj. heimilað að fella niður til ársloka 1942 tolla af ýmsum kornvörutegundum, eins og nánar er þar talið upp. Það eru sem sagt allar mögulegar kornvörutegundir. Í 2. lið er stj. heimilað að lækka um helming toll af sykri alls konar, sem nánar er svo talið upp. Í 3. tölul. er stj. aftur á móti heimilað að hækka um allt að 50% tolla af áfengi og tóbaki og innlendum tollvörutegundum. Þetta ákvæði með áfengið og tóbakið er orðið mjög þýðingarlítið, þar sem verð þessara vörutegunda er orðið margfalt við það, sem það var, þegar þessi l. voru sett. Samt sýnist ekki ástæða til að hrófla við þessu, því að það hefði auðvitað ekkert gildi, þó að farið væri að heimila ríkisstj. að hækka tolla á áfengi og tóbaki um nokkur hundruð eða þús. prósenta, því að álagningin er nú margföld á við tollinn. — Ég hef svo ekkert frekar um þetta mál að segja f.h. nefndarinnar.