15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Eins og nál. á þskj. 679 ber með sér, var ég fjarstaddur, er hv. landbn. afgreiddi þetta mál. Þess vegna mun ég skýra afstöðu mína hér. — Ég vil ekki draga úr því, að nauðsynlegt er að leggja fé fram til að tryggja og flýta fyrir því, að keyptar séu stórar vélar til jarðvinnslu, enda hefur þingið viðurkennt það með fjárveitingum, sem veittar hafa verið í þessu skyni. Ég vil minna á, að ég ætla, að í lögunum um eignaraukaskatt hafi verið ákveðinn hluti skattsins lagður í framkvæmdasjóð og síðan ákveðnum hluta sjóðsins varið til vélakaupa. Með niðurfellingu laganna um eignaraukaskatt var þessi fjáröflunarleið úr sögunni. Mér finnst því ekki óeðlilegt, þótt þetta frv. sé borið fram með tilliti til þeirra verðhækkana í ísl. krónum, sem átt hafa sér stað vestan hafs vegna gengislækkunarinnar. Sú skýrsla, sem hv. frsm. flutti hér um það, hversu mikið er búið að kaupa og hversu mörg sambönd eru skammt á veg komin, var fróðleg. Ég vil þó minna á, að þrátt fyrir allt það fé, sem lagt hefur verið til jarðræktarmálanna, þá hefur ekki lánazt að gera landbúnaðarframleiðsluna það ódýra, að hún gæti orðið samkeppnisfær, og vantar meira að segja mikið á það. Því miður hefur árangurinn orðið lítill. Ég vil einnig minna á, að hæstv. ríkisstjórn virðist orðin sjóndöpur, þegar um er að ræða ýmis önnur nauðsynjamál. Fróðir menn telja, að söluhorfur á fullverkuðum saltfiski séu góðar. Fiskþurrkunarstöðvar eru hér litlar og ónógar, og engum dettur í hug, að hægt sé að taka hér upp fiskþurrkun með gamla laginu, að fólk beri fisk út á reiti. Það er enginn vafi á því, að það á að hjálpa mönnum til að koma hér upp fiskþurrkunarstöðvum með nýtízku tækjum. Sú sama ríkisstjórn, sem vill framgang landbúnaðarins, virðist vera steinblind á nauðsyn sjávarútvegsins, sem er jafnvel enn þýðingarmeiri. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því, hversu ríkisstj. eru mislagðar hendur í þessu efni. Fyrir örfáum dögum ákvað ríkisstjórnin að stöðva breytingar á alþýðutryggingalögunum, sem mundu hafa kostað ríkið um 1½ millj. kr. Það er nauðsyn að spara þetta — að áliti hæstv. ríkisstjórnar. Og það er ekki lagt fé í það að létta undir með mönnum að taka upp saltfisksþurrkun með nýjum tækjum. Ég fæ ekki varizt þeirri hugsun, að hér sé hæstv. ríkisstjórn og þeir flokkar, sem hana styðja, heldur skammsýn. Ég hefði talið hyggilegt að sýna viðleitni til þess að mæta þörfum sjávarútvegsins hliðstætt þeim fjárveitingum, sem veittar eru landbúnaðinum, ef ríkisstjórnin telur á annað borð, að hægt sé að auka kvaðir ríkissjóðs. Þá á ekki síður að rétta hlut sjávarútvegsins. Ég viðurkenni, að bændur eigi rétt á að vænta þess, að þeir fái hinn sama styrk til vélakaupanna og þeim var heitið í upphafi. En ég vil ekki, að ríkisstjórnin sé að mismuna þegnunum og veita sumum hærri styrki en öðrum. Þetta taldi ég rétt að láta koma fram hér.