15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki vera fjölorður, svo að ég tefji ekki þessar umræður. Það er rétt hjá hv. 1. þm. N-M., að framleiðsla landbúnaðarafurða hefur aukizt verulega, þótt fólki hafi fækkað í sveitunum, enda mætti nú fyrr vera. Þótt það sjáist nú í einhverju þeir styrkir, sem veittir hafa verið til sveitanna! Það væri naumast, ef enginn árangur sæist af öllu því fé, sem lagt hefur verið til jarðabóta og húsabygginga. En það sem ég átti við var, að ekki væri enn farið að gæta þess í verði landbúnaðarafurða, að til landbúnaðarins væru nú komin hin fullkomnustu nýtízku tæki. Það er tilfellið, að það meðalbú, sem lagt er til grundvallar við verðlagningu landbúnaðarafurða, illu heilli, þar er gert ráð fyrir, að búið sé rekið með mjög frumstæðum hætti. Þær tölur, sem þar er miðað við, kann nú hv. fyrri þm. N-M. miklu betur en ég, en mig minnir, að þar sé miðað við 70 ær, 4–5 kýr og nokkur hross, og sú vinna, sem ætlað var að þyrfti til þess að framfleyta þessu búi, var alveg ótrúlega mikil. Þetta er sá grundvöllur, sem verðlandbúnaðarvaranna er miðað við nú. Við sitjum sem sagt enn uppi með sex manna búið sæla, og verðið er miðað við það. Það, sem á raunverulega að gera, er það að reikna út, hvað kostar framleiðslan á búi, sem rekið er á ræktuðu landi og einungis með vélum, og svo aftur á móti að reikna út, hvað kosti framleiðsla á jafnstóru búi, sem ekki er rekið á ræktuðu landi og ekki hefur vélar til að vinna með nema að mjög takmörkuðu leyti. Þegar þetta liggur fyrir, þá sér maður mismuninn og getur þá einnig séð, hvernig bezt er að skipta styrkjunum til landbúnaðarins með það fyrir augum, að þeir, sem starfa við útflutningsframleiðsluna, verkamenn og aðrir, geti veitt sér afurðirnar á sómasamlegu verði, en ekki það háu verði, að útflutningsframleiðsla verði af þeim sökum ekki samkeppnisfær. Fram hjá þessu hefur alveg verið gengið, og ég segi þetta nú ekki vegna þess, að ég geri mér vonir um, að þessu verði breytt á næstunni, en mig furðar mjög á því, að hin stóra stofnun Búnaðarfélag Íslands skuli ekki fyrir löngu vera búin að gera áætlun um þessi atriði.