15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

171. mál, lánveitingar og lántaka vegna Sogs- og Laxárvirkjana

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er í nánum tengslum við 9. dagskrármálið, 170. mál. En í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að lána Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni í Þingeyjarsýslu allt að 2 millj. Bandaríkjadollara af framlögum frá efnahagssamvinnustjórninni í Washington með þeim skilmálum, sem ríkisstj. telur nauðsynlega, og gegn þeim tryggingum, er hún tekur gildar. Undanfarið hefur það verið svo, að af fyrrv. ríkisstjórnum og þessari ríkisstjórn líka í framhaldi af því hefur verið unnið að þessum málum á þeim grundvelli, að Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin og áburðarverksmiðjan fyrirhugaða, þessi þrjú fyrirtæki, þau gætu fyrst og fremst notið stuðnings af því fé, sem fæst frá þessari stofnun. Nú hefur núv. ríkisstjórn komið sér saman um að vinna að þessum málum þannig. En af því að Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin eru lengra komnar í undirbúningi málanna en þriðja málið, sem ég nefndi, og hægt mun vera að hefjast handa um framkvæmdir í þeim í sumar, ef annað nauðsynlegt, en lán til þeirra er fyrir hendi, þá þótti rétt að ákveða nú, að þessar tvennar framkvæmdir nytu þessa láns, sem hér er um að ræða, sem væntanlega verður tekið 1. júlí í sumar, en að áburðarverksmiðjan kæmi svo til síðar á árinu með að fá sinn hluta af þessum gjaldeyri, sem væntanlega kemur til landsins síðar á árinu af Marshallfé. — Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóði sé heimilt að gerast meðeigandi að Laxárvirkjuninni hvenær sem er eftir að lög þessi öðlast gildi, og er lánveiting til Laxárvirkjunarinnar bundin því skilyrði, að samningar í því efni takist um sameign og framkvæmd Laxárvirkjunarinnar milli ríkisstj. og Akureyrarbæjar á sama grundvelli og samið hefur verið milli ríkisstj. og Reykjavíkurbæjar um viðbótarvirkjun Sogsins. Og þessi heimild um 26 millj. kr. lán og endurlán á því til Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar er þannig hugsuð, að ráðgert er, að keyptar verði utan Bandaríkjanna fyrir allt að þessari fjárhæð vélar og efni til Sogs- og Laxárvirkjananna. Nú óttast ríkisstj., að örðugt muni reynast að taka af gjaldeyri, sem fæst fyrir seldar afurðir, til þess að greiða fyrir þessar vörur, og ráðgerir því að fara þess á leit að fá lán í þessu skyni erlendis til greiðslu á þessum hluta kostnaðarins. Þá yrði ekki farið til Marshallstofnunarinnar, heldur yrði farið í önnur hús til þess að útvega þetta lánsfé, og því er þessi till. fram borin. — Ég skal taka fram, að í lögum, sem þegar eru fyrir hendi um Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina, eru nokkrar lánsheimildir, en þær eru þannig, að þær gátu undir vissum kringumstæðum orðið ekki einhlítar, eins og þær eru úr garði gerðar, vegna þess að þar er ráðgert, að lántökurnar séu á vegum hlutaðeigandi bæjarfélaga, en að ríkið ábyrgist lánin. En nú er þessu komið að nokkru leyti og stefnt að því að koma þessu að öllu á nýjan grundvöll, svo sem frv. ber með sér, þannig að Sogsvirkjunin er þegar sameign bæjar og ríkis og gert er ráð fyrir, að Laxárvirkjunin verði það líka. Og þá er sjáanlegt, að breyta verður þessum samþykktum, sem gerðar hafa verið, þannig, að ríkið gerist þá lántakandinn beinlínis. En ef hitt formið yrði haft, þannig að þessar stofnanir, Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin, beinlínis tækju lánin, mundi ríkið ábyrgjast þau lán. En það verður að líta svo á, að ef þessi till., sem er í 2. gr. frv., verður samþ., þá yrði einnig heimilt, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir lánunum, ef sú aðferð yrði höfð. Þess vegna þykir réttast að búa svo um eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Í þeirri gr. í 2. málsgr. er líka tiltekið, að lánveiting til Laxárvirkjunarinnar sé bundin því skilyrði, sem ég gat um áður, að þar kæmi til greina hliðstæða við það, sem á sér stað viðkomandi Sogsvirkjuninni. Þetta þykir eðlilegt fyrirkomulag, að sami háttur verði hafður á í þessum efnum í báðum tilfellunum, og þess vegna er þetta ákvæði tekið inn í, svona til öryggis.

Ég hygg, að það sé ekki ástæða til að gefa á þessu frekari skýringar. En ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þd. vilji greiða fyrir því, að þetta mál, ásamt hinu málinu, sem er þessu máli nátengt og er hér á dagskrá í dag, fái fljótan framgang.