15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

171. mál, lánveitingar og lántaka vegna Sogs- og Laxárvirkjana

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. óskaði eftir, að ég segði nokkur orð í sambandi við 1. umr. þessa máls. Hins vegar liggur málið greinilega fyrir, og frekari skýringar fylgja í grg. Eins og ljóst er, leggur ríkisstj. til, að varið verði 2 millj. dollara til þessa fyrirtækis, en auk þess verði veitt heimild fyrir 26 millj. kr. láni. Samkv. áætlun er gert ráð fyrir, að auk dollaragjaldeyris þurfi annan gjaldeyri, allt að 26 millj. kr., og ríkisstj. er ekki svo bjartsýn, að hún telji möguleika á að taka þann gjaldeyri af gjaldeyrisöflun næstu ára. Þess vegna fylgir þessi heimild með í frv. Frekari upplýsinga geta þm. aflað í grg. og sé ég því ekki ástæðu til að ræða málið frekar.

Ég geri till. um, að málinu sé vísað til 2. umr., en hins vegar sé ég ekki ástæðu til, að það verði látið fara til nefndar.