16.05.1950
Efri deild: 109. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

171. mál, lánveitingar og lántaka vegna Sogs- og Laxárvirkjana

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í sambandi við afgreiðslu þessara stóru mála mun ég láta nægja örfá orð í sambandi við afgreiðslu þessa máls. — Hér eru bornar fram óskir um það, að ríkissjóður taki á sig stór fjárframlög og þungar byrðar vegna raforkumálanna í landinu, en þessar framkvæmdir ná þó ekki til allra landsmanna, heldur aðeins til einstakra héraða, þó að byrðin af þeim hvíli á almenningi í landinu. Á 16. gr. fjárl. eru 650 þús. kr. ætlaðar til þess að styrkja þá menn, sem fara verða aðrar leiðir í raforkumálunum en þá, sem hér er um að ræða. Þannig er það víðast hvar á Vesturlandi og Austurlandi, að menn verða að koma sér upp dieselrafstöðvum, vegna þess að þeir geta ekki notið góðs af þessum virkjunum. Vildi ég þá vænta þess, að hæstv. ráðherra liti með sanngirni á mál þessara aðila, þegar kemur til úthlutunar fjárins. Það hefur orðið nokkur deila u.m það í fjvn., hvort veita ætti þetta fé til smástöðva, og var á það sætzt að veita 400 þús. kr. til stöðva yfir 75 ha. af þessu fé. Vænti ég þess, að hæstv. ráðherra sjái sér fært að láta raforkumálasjóð standa undir þessum framkvæmdum og hlúi að því eins vel og hægt er í sambandi við úthlutun þessara 650 þús. kr., að þessum aðilum verði gert kleift að eignast dieselrafstöðvar. — Mér þótti rétt að láta þetta koma fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls.