15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

175. mál, Laxárvirkjunin

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af fjhn. samkvæmt beiðni hæstv. landbrh. Það er í samræmi við það, sem oft skeður, einkum á síðari hluta þings, að n. tekur að sér flutning mála fyrir ráðh., án þess að taka á sig ábyrgð á málinu á annan hátt, enda hafa einstakir nm. áskilið sér óbundnar hendur um einstök atriði frv. Aðalefni þessa frv. er það, að kveða svo á, að Laxárvirkjunin, eða Akureyrarbær fyrir hennar hönd, skuli hafa sömu kjör eins og Sogsvirkjunin hefur og Reykjavíkurbær fyrir hennar hönd, þ. e. a. s., að það verði sams konar félagsbú milli Akureyrarkaupstaðar og ríkisins um stækkun og eignarrétt á Laxárvirkjuninni eins og búið er að ákveða um Sogsvirkjunina. Þetta er aðalatriði frv., að ríkið verði ekki aðeins eigandi að því, sem hér eftir verður gera til viðbótar Laxárvirkjuninni, heldur fái sinn hluta af þeim mannvirkjum, sem nú eru til, með kostnaðarverði. Nú er ekki því að leyna, að mótstaða hefur verið gegn þessari breytingu í hlutaðeigandi kaupstað, Akureyri. En ég skal nú taka það fram, að ég, sem er Akureyringur og gjaldþegn á Akureyri, lít svo á, að það geti ekki komið til mála, að Akureyrarbær krefjist annarra réttinda fyrir sig, en Reykjavíkurbær hefur í þessu efni, og að hitt sé miklu meira virði fyrir bæinn, að úr frekari framkvæmdum geti orðið, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir og annað frv., sem lagt hefur verið fyrir Alþ., gerir einnig ráð fyrir, sem sé því, að greiða fyrir frekari framkvæmdum og það stórkostlegum framkvæmdum í þessu máli. Á annað vildi ég einnig leggja áherzlu, og það er, að sveitirnar umhverfis Laxárvirkjunina, — og þar á ég ekki aðeins við Þingeyjarsýslu, heldur a. m. k. einnig við Eyjafjarðarsýslu, — nytu fyrirgreiðslu um línur út frá virkjuninni, á svipaðan hátt og þegar er hafið hér á Suðurlandi í sambandi við Sogsvirkjunina. Nytu þær þá jafnréttis við nágrenni Sogsins, eins og ég ætlast ekki til annars en að Reykjavíkurbær njóti jafnréttis við Akureyri. Ég vil í því sambandi minna hæstv. landbrh., sem jafnframt fer með raforkumál, á það, að til eru l., sem eru orðin nokkurra ára gömul, — ég held þau hafi átt að koma til framkvæmda á árinu 1946 — um línuna frá Akureyri til Dalvíkur, sem er ekki nema að mjög litlu leyti búið að framkvæma enn. Á þetta legg ég miklu meiri áherzlu heldur en hitt, að Akureyri geti haft tiltölulega ódýrasta hluta raforkuversins sem séreign sína og notið þannig réttinda fram yfir aðra, sem líkt stendur á fyrir, og þá sérstaklega fram yfir Reykjavík. Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að sá hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, geri grein fyrir frv., því að það er í sjálfu sér hans mál.