03.02.1950
Efri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég verð að biðja afsökunar á því, að ég var ekki í hv. d. þegar síðasta mál var rætt (103. mál), en þessi mál eru í mörgu skyld. Viðkomandi þessu máli þarf ég ekki að hafa mörg orð, því að hvort tveggja er, að málið er mjög ljóst og grg. er allýtarleg og gerir ljósa grein fyrir því, hvers vegna frv. er flutt. Eins og hv. d. er kunnugt, er mikill áhugi vaknaður hjá þjóðinni fyrir skógrækt, og ályktun sama efnis, sem gekk þó nokkru lengra en hér er gert, var samþykkt einróma og ég held með öllum atkv. á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, en þennan fund sátu tugir manna úr öllum stjórnmálaflokkum landsins, og er því augljóst, að um fullkomið sanngirnismál er hér að ræða, þar sem svo mikill einhugur kom fram á fundinum. Eins og sést af frv., er land það, sem tekið er til ræktunar, allstórt, 6 ha. eða 17 dagsláttur; það er gert vegna þess, að talið er af þeim, sem bezt vit hafa á þessum málum, að til þess að skógarreitur geti komið að fullum notum megi hann ekki vera minni, svo að nægilegt skjól sé og lauf og barr fjúki ekki burtu, heldur verði að áburði smátt og smátt. Ef 6 ha. eru teknir til ræktunar, veldur það miklum kostnaði, og sú kynslóð, sem leggur fyrir sig skógrækt, sér ekki arð af vinnu sinni. Því telja margir sanngjarnt, að þeir menn, sem taka sér slíkt fyrir hendur, fái að draga undan skatti 2/3 hluta fjár þess, sem þeir leggja í ræktun og girðingar. Ég held, að ekki sé gefið hættulegt fordæmi með þessu, því að ekki munu vera aðrir, sem geta borið sig saman við þetta og fengið þannig skattfrelsi. Samt sem áður er ekki farið lengra í þessu en það, að ekki má draga hærri upphæð en 3.600 kr. frá skattskyldum tekjum af þessum ástæðum, og verkinu má áreiðanlega miða hægt, ef ekki þarf að leggja fram stærri fúlgur árlega, sem þarf svo að greiða skatt af, en þó þetta sé ekki hærri upphæð, sem miðað er við, er það samt vissulega til hægðarauka fyrir viðkomandi og er þó fremur viðurkenning á þessu málefni. Frv. þetta var undirbúið í fjmrn. og var rætt við hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem mun hafa dregizt á að beita sér fyrir því, að það næði fram að ganga. Kröfur aðalfundar Skógræktarfél. voru miklu meiri, en það þótti varhugavert að ganga lengra, heldur sjá, hvernig þetta gæfist. Það er engin hætta á, að þetta verði misnotað, þar sem þarf vottorð frá skógræktarstjóra, að landið sé hæft til skógræktar og verkið vel gert. Ég held, að þetta sé hættulaust mál fyrir skattalöggjöfina og verulegur ávinningur að því, að Alþ. sýni viðurkenningu í verki þeim mönnum, sem vinna að skógrækt. Ég vona því, að frv. fái einróma samþykki á Alþ.